136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:31]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin var þessi: Er ekki skárra að menn geti valið um þetta og flokkar sem vilja geti þá haldið sín prófkjör? Jú, það má segja að það sé skárra en það er bara svo ruglingslegt fyrir kjósandann þó að það standi í frumvarpinu að það eigi að merkja listana raðaður listi og óraðaður listi. Ég held að við verðum a.m.k. að reyna að prófa þetta einhvers staðar í sveitarstjórnum áður en farið er alla leið með svona mál. Við höfum ekki sömu hefðir í þessum efnum, sömu venjur og t.d. í nálægum löndum, svo sem í Danmörku þar sem svona persónukjör er, þar sem er gríðarlega flókið kosningakerfi, þar sem sum nöfn eru feitletruð á framboðslistum, þar sem sumir raða nöfnum í stafrófsröð og aðrir ekki, aðrir í þeirri röð sem flokksforustan telur að sé hin rétta o.s.frv. Ég held að við eigum að halda okkur við það sem er minnst ruglandi í þessum efnum.

Svo er líka að því að huga, ef við erum að tala um eitthvað sem gerist á miðju kjörtímabili, að það er allt í lagi og sjálfsagt mál að breyta kosningalögum á miðju kjörtímabili sem koma þá til framkvæmda kannski tveimur árum seinna því að þá hafa allir tíma og möguleika á að laga sig að því. Það er kannski eðlilegast að gera þetta með það góðum fyrirvara. Ég er ekki að segja að þessar breytingar sem slíkar komi ekki til álita en mér finnst ekki boðlegt að koma með þær þegar flokkarnir eru komnir af stað með sinn kosningaundirbúning í formi forvala og prófkjara og allt þetta.

Því má ekki gleyma heldur að í Danmörku t.d. er fyrirkomulagið allt öðruvísi. Þar er stillt upp til framboðs löngu fyrir kosningar. Flokkarnir eru klárir í kosningar hvenær sem er vegna þess að það er hefð fyrir því að þær geti orðið hvenær sem er. Þannig er það í sumum nálægum löndum þar sem forsætisráðherrann boðar kosningar með stuttum fyrirvara og flokkarnir eru klárir í slaginn og þurfa ekki að fara í prófkjör og persónuvalið á kjördag leysir síðan úr ákveðnum vandamálum við svoleiðis aðstæður.