136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:23]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mjög skýrt fram í máli mínu að ég tel að þetta eigi að ræða og hef ekki lagt neitt annað til. En ég legg til að það verði gert þegar nægur tími gefst til þess að vinna málið og fara t.d. yfir þau sjónarmið sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir dró hér upp. Þetta er mál sem virkilega þarf að leggja vinnu í og skoða hvernig best verður fyrir komið.

Ekkert verður gert á nokkrum dögum en við getum tekið vinnuna upp aftur eftir kosningar ef hv. þingmaður telur að það sé betra vinnulag að fara í gegnum einar kosningar og rekast á öll vandkvæðin sem fylgja þessu. En ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að þarna eru mörg vandkvæði sem mjög mikil ástæða er til að skoða vandlega.

Ég var einfaldlega að meta málflutning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þegar ég nefndi það að á máli hennar mætti skilja að hún reiknaði með því að Sjálfstæðisflokkurinn brygði fæti fyrir málið. Það er alls ekki svo að hv. þingmaður geti treyst því, síður en svo. Því eins og hér hefur komið fram erum við fyllilega tilbúin að ræða breytingar á kosningalögunum en við höfum margendurtekið og margfarið yfir það að fullkomin ástæða er til þess að gera það mjög vandlega. Vinna það mjög vel og leysa úr þeim spurningum sem einmitt hafa komið fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, sem er nú flutningsmaður að málinu, og í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem (Forseti hringir.) er stuðningsmaður þess.