136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að maður þurfi ekkert að vera neitt svakalega snjall til þess að draga þá ályktun að Sjálfstæðisflokkurinn sé frekar mikið á móti málinu miðað við það hvernig hv. þingmenn flokksins hafa talað við þessa umræðu. Þeir tala hreinlega gegn persónukjöri, gegn þessu máli.

Talað er um að þetta komi allt of seint, þetta komi þegar leikurinn er hafinn og þetta eigi að gera síðar og megi skoða síðar. Ég held að ekki þurfi að tala til þeirrar sem hér stendur í þeim tón að hún geti ekki treyst því að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að bregða fæti fyrir málið. Ég sé ekki annað en að Sjálfstæðisflokkurinn bregði fæti fyrir málið miðað við málflutninginn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að greiða þessu máli atkvæði sitt.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn styður málið sem ég flyt hér ásamt fleiri þingmönnum þá bara verður það samþykkt. Það er hið besta mál. (Gripið fram í.) Það yrði annaðhvort samþykkt óbreytt eins og það er flutt hér eða því verður breytt í nefnd.

Ég nefndi það í ræðu minni, og fleiri hafa gert það, að eðlilegt væri að skoða líka sænsku leiðina, þ.e. að röðun sem kemur út úr prófkjöri hjá flokkunum, eða er á einhvers konar formi hjá flokkunum, hafi einhver leiðbeinandi áhrif en að kjósendur geti samt breytt þeirri röðun með sæmilega léttum hætti, að kjósendur hafi þá áhrif á röðunina þrátt fyrir að fram komi raðaður listi. Þannig er það í Svíþjóð. Mér finnst ekkert útilokað að menn geti sameinast um það og þá standa prófkjörin, sem eru hafin, fyllilega fyrir sínu.