136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:32]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt málið. Við höfum haft skamman tíma. Er það ekki grundvallaratriði? Hér er hent fram máli og formenn allra þingflokka nema (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokksins bera málið fram, sem er alveg fyllilega réttmætt af þeirra hálfu.

Hins vegar hefur verið boðað að ríkisstjórnin ætli sér að klára málið á mjög skömmum tíma. Ég tel mig vita hvenær málið fór af stað því sérfræðingur nefndarinnar Þorkell Helgason, sem er mjög mætur maður, hafði samband og vildi kynna útfærsluna strax þegar fyrstu drög voru komin að málinu.

Ég tel mig ekkert fórnarlamb í þessu, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. En málið er bara einfaldlega þannig að ekki komu allir stjórnmálaflokkarnir að því. Það er rétt að taka það fram

Í mínum flokki er hefð að hafa prófkjör og af því að hv. þingmaður nefndi kynjahlutföll þá var það ekki ég sem dró það fram sem sjónarmið mitt í umræðunni, heldur dró ég fram að þetta væri sjónarmið sem hv. flytjandi málsins Siv Friðleifsdóttir nefndi og hafði áhyggjur af, sem og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

Það er sem sagt hefð í mínum flokki að í undirbúningi kosninga tökum við nokkra rimmu innan okkar raða og höldum prófkjör og tökum slaginn þar (Forseti hringir.) en síðan sameinumst við um að flytja stefnu flokksins sem hefur verið mótuð (Forseti hringir.) á landsfundi og teljum eðlilegt að þannig sé því háttað. En við erum tilbúin til að ræða alla aðra hluti í þessu líka.