136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:34]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi bara í andsvari mínu að hv. þingmaður tók einmitt undir þá hugsun eða þau sjónarmið sem fram komu um að kynjahlutföll gætu verið í hættu ef þessi leið yrði farin. Hið sama á alveg eins við í prófkjörum.

En kjarninn í þessu er sá — vegna þeirrar gagnrýni sem hér hefur komið fram um að tíminn hafi verið skammur — að skammt er síðan ríkisstjórnin tók við. Þessi ríkisstjórn snýst um lýðræðismál og efnahagsmál, eins og kemur fram í verkáætluninni. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður hafi tekið eftir þeirri lýðræðisvakningu, nánast byltingu, sem hefur orðið í samfélaginu í vetur. Krafan er að almenningur hafi meira um það að segja hverjir setjist inn á þing. Þetta er aðferð til þess.

Ef Alþingi kemur ekki til móts við þau sjónarmið sem eru í samfélaginu og slær ekki í takt við sálarlíf samfélagsins þá er Alþingi ekki á réttri leið. Hér setjum við fram frumvarp um persónukjör sem er í takt við kröfu samfélagsins. Hv. þingmaður og Sjálfstæðisflokkurinn eru andvíg málinu og ég virði það sjónarmið. Það er í góðu lagi.

En fjórir þingflokkar af fimm leggja til að þessi leið verði farin og þetta verði síðan unnið í nefnd. Hvað kemur út úr nefndinni þegar þingið fær málið í hendurnar og vinnur með það? Hvort tillaga um breytingar komi út úr nefndinni verður að koma í ljós.

Meginatriðið er það að krafa samfélagsins er aukið vægi almennings við val á alþingismönnum. Hér er frumvarp til að koma til móts við það. Ef þingflokkar eru andvígir því þá eiga þeir að segja það en ekki skýla sér á bak við vinnubrögð eða annað þess háttar vegna þess að frumvarpið er mjög vel unnið (Forseti hringir.) og einfalt í sjálfu sér. Stjórnmálaflokkar geta valið (Forseti hringir.) um raðaðan lista eða óraðaðan. Miklu flóknara er það nú ekki. (Gripið fram í.)