136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:36]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margtekið fram að ég er ekki andvíg persónukjöri sem slíku og kem úr umhverfi þar sem við röðum upp á lista okkar með prófkjörum, sem er í sjálfu sér persónukjör.

En þetta er skammur tími. Þetta hefur ekki verið unnið á eðlilegan hátt. Bara úr þessum ræðustól hefur í kvöld verið boðuð gjörbreyting á frumvarpinu. Það gerði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og taldi að frumvarpið ætti að vera einhvern veginn allt öðruvísi.

Ég tel þetta mjög mikið mál og lýðræðislegan grundvöll undir lýðræðislegu starfi okkar í landinu. Þess vegna legg ég til, hæstv. forseti, að þegar fjallað verður um þetta mál í nefnd þingsins verði opnir fundir. Breytingar voru gerðar á þingsköpunum þannig að nú er möguleiki á að hafa opna fundi.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þannig verði farið með þetta mál svo almenningur í landinu geti áttað sig á því um hvað það fjallar. Að málið verði unnið á opnum fundum allsherjarnefndar til að það geti verið fært fram þannig að almenningur í landinu hafi skilning á því um hvað það snýst.

Ef það er einlægur vilji stjórnarflokkanna (Gripið fram í: Stjórnarandstöðu.) að þetta mál fari fram þá held ég að eðlilegasta leiðin væri að menn ræddu þetta opið og almenningur í landinu gæti fylgst með þeirri umræðu í gegnum opna fundi. Því full ástæða er til að ræða þessi mál. Eins og hv. þingmaður nefndi þá er mikil (Forseti hringir.) lýðræðisbylting í landinu og menn (Forseti hringir.) hafa mikinn áhuga á þeim málum. Það er þá eins gott að ræða þau fyrir opnum tjöldum.