136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

sameining bráðamóttöku í Fossvogi og við Hringbraut.

[10:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, að við megum ekki í neinum tilvikum stefna öryggi sjúklinga í hættu og þess vegna verðum við að taka það alvarlega þegar við fáum þær fréttir inn í sali Alþingis að einhugur sé í læknahópnum sem sinnir þessum sjúklingum um að umrædd aðgerð geti jafnvel stefnt öryggi hjartasjúklinga og annarra sjúklinga í hættu og við verðum að taka það mjög alvarlega.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að við þurfum að fara í ákveðnar aðgerðir í hagræðingarskyni í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs. En fyrst og síðast má það ekki koma niður á öryggi sjúklinga. Hér er eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi og við megum ekki taka skref aftur á bak í þeim efnum sem geta leitt það af sér að heilbrigðisþjónustan verði ekki eins góð og hún hefur verið á Íslandi á undanförnum árum. Í því mikilvæga kerfi gegnir Landspítalinn lykilhlutverki sem grunnstofnun.