136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

sameining bráðamóttöku í Fossvogi og við Hringbraut.

[10:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um áðan tekur það í þegar skorið er niður um 6.700 millj. kr. í heilbrigðiskerfinu. Það er stefnt að því að skerða þjónustu eins lítið og hægt er. Það segir sig hins vegar sjálft að þegar um niðurskurð af slíkri stærðargráðu er að ræða bitnar það á starfseminni. En ég tek undir með hv. þingmanni að öðru máli gegnir um öryggisþáttinn. Það má ekki tefla öryggi sjúklinga í tvísýnu. En ég vil vekja athygli á því að kannski er varasamt að skoða þetta með hliðsjón af óbreyttu fyrirkomulagi vegna þess að menn eru að máta hugmyndir af þessu tagi inn í breytt fyrirkomulag að ýmsu öðru leyti. Og til þess að umræðan geti farið fram eins og verðugt er þarf að skoða það með tilliti til slíkra þátta að sjálfsögðu líka. En ég tek undir með hv. þingmanni: Við þurfum að stíga varlega og ekki tefla öryggi sjúklinga á nokkurn hátt í tvísýnu.