136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

opinber hlutafélög.

[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að engin slík hætta sé á ferðum en ég endurtek það sem ég áður sagði, það er auðvitað ástæða til að hafa leikreglurnar skýrar í þessum efnum. Ég held að það sé langsótt lagatúlkun að það hefði átt að gera Morgunblaðið að opinberu hlutafélagi þá stuttu stund sem það stoppaði í umsjá banka eða var í gjörgæslu eða endurskipulagningu hjá þeirri lánastofnun sem það átti viðskipti við. Morgunblaðið var að sjálfsögðu sjálfstæður lögaðili allan tímann með tiltekna kennitölu o.s.frv. og eignarhaldi þess hafði ekki formlega verið breytt að lögum. Ég held að það geti tæpast verið ætlunin nema hv. þingmaður sé svo kappsamur um það að koma sem flestum félögum formlega í eigu hins opinbera í þeim skilningi að þau eigi að breytast í opinber hlutafélög þá stund sem þau eru til meðhöndlunar á þessum nótum, sem ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður sé. Það er að sjálfsögðu rétt að skýra leikreglurnar í þessum efnum og þetta er eitt (Forseti hringir.) af því sem þarf að taka á, t.d. ef fyrirtæki staðnæmist lengi í eignaumsýslu félaga í eigu opinbers banka, hvort það á þá að framkvæma slíka breytingu.