136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

störf sérstaks saksóknara.

[10:55]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er eins og pólitíkin hafi snúist öll á haus hér í dag því að sjálfstæðismenn eru farnir að tala gegn Varnarmálastofnun. Það er kannski ekkert skrýtið því að það snýr eiginlega allt á haus í samfélaginu og þarf ekkert að fara mörgum orðum um það. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa birst reglulega fréttir af alls kyns gjörningum sem eiga að hafa átt sér stað í bönkunum og ýmsum stofnunum sem áttu að hafa eftirlit með að hér væri allt í sóma.

Svo virðist sem eitthvað hafi vantað upp á eftirlitið og ýmsum sögum fer af alls kyns ósóma sem venjulegu fólki ofbýður. Má þar nefna nýleg orð seðlabankastjóra, þ.e. fyrrverandi seðlabankastjóra, um meinta fyrirgreiðslu til stjórnmálamanna og þekktra einstaklinga í samfélaginu og einkahlutafélaga þeim tengdum. Þar má nefna sögusagnir um óeðlilega fyrirgreiðslu til ýmissa sem tengdust bönkunum, beint eða óbeint, um ýmis kjör sem starfsmenn bankanna nutu sérstaklega umfram aðra og um meinta fjármagnsflutninga á milli landa. Um það að eftirlitsstofnanir hafi ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu, heldur miklu heldur gengið í lið með þeim sem fóru of geyst og þar má einnig nefna háværa kröfu um frystingu eigna auðmanna sem flestir eru sammála um að ekki sé framkvæmanleg þar sem sök hefur ekki sannast á nokkurn mann og mun ekki gera fyrr en rannsókn mála og saksókn er lokið og dómur genginn. (Gripið fram í.)

Þjóðin er orðin langeyg eftir því að fá svör við spurningum sínum sem hún þegar er farin að borga fyrir. Skortur á trausti alþjóðasamfélagsins gerir okkur erfitt fyrir, fólk treystir ekki stjórnvöldum, það treystir ekki bankanum sínum og þessi skortur grefur undan því að hér sé hægt að hefja uppbyggingu á nýjan leik.

Embætti sérstaks saksóknara var komið á með lögum hér í þinginu í desember og eftir töluverða leit að óvilhöllum manni til að gegna því embætti var hann ráðinn í febrúar. Eftir því sem næst verður komist hafa fjórir starfsmenn verið ráðnir til embættisins. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra svona almennt hvað sé að frétta af þessum málum og hvort þess sé að vænta að réttlætið nái hér fram að ganga innan tíðar. Þá er einnig gagnlegt að heyra um samspil rannsóknarnefndarinnar (Forseti hringir.) sem skipuð var hér í þinginu og hins sérstaka saksóknara.