136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

staða sjávarútvegsfyrirtækja.

[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er ekki mikið svigrúm til aðgerða innan fiskveiðiársins þegar búið er að úthluta öllum veiðiheimildum og ganga frá málum eins og búið var að gera þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda. Ég get þó upplýst hv. þingmann um að verið er að skoða ýmis atriði og þó einkum með því hugarfari hvort það gæti haft jákvæð áhrif á atvinnustigið og atvinnusköpun hér innan lands. Það er kannski það sem er mest áríðandi. Þær aðgerðir mundu ekki skipta neinum sköpum t.d. fyrir afkomu stærri sjávarútvegsfyrirtækja, þær væri ekki þess eðlis.

Það sem kæmi íslenskum sjávarútvegi augljóslega best, eins og reyndar öllu íslensku samfélagi, væri umtalsverð og hröð lækkun vaxta. Eitt af því sem ýtir hráefninu út úr landinu og hindrar að það komi til vinnslu innan lands er að vaxtakostnaðurinn er svo hár að fyrirtækin ráða ekki við birgðasöfnun og lagerhald. Þá er valinn sá kostur að reyna að koma aflanum sem fyrst út og fá einhverjar krónur í höndina með því að flytja hann út í gámum eða jafnvel láta skipin sigla. Það er því veruleg ástæða (Forseti hringir.) til að hafa áhyggjur af þeirri þróun og það sem mundi vinna mest með okkur í öllu því (Forseti hringir.) væri lækkun fjármagnskostnaðar.