136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lýst mig fylgjandi því sjónarmiði sem fram kemur í frumvarpinu, að jafna lífeyriskjör og lífeyrisréttindi þeirra hópa sem undir frumvarpið falla og opinberra starfsmanna. Ég hef reyndar lýst því yfir að ég sé reiðubúinn til að ganga svo langt að reyna að jafna lífeyriskjör opinberra starfsmanna annars vegar og hins vegar launþega á almenna vinnumarkaðnum.

Gallinn við þetta mál er sá sem ég nefndi áðan, að þingmenn séu sjálfir að hlutast til um eigin lífeyrisréttindi. Ég hefði talið eðlilegra að kjararáði væri falið að taka ákvarðanir um öll okkar kjör, þar á meðal lífeyriskjörin. Ég er hálfpartinn með þessari spurningu minni og innleggi í umræðuna að beina því til ríkisstjórnarinnar að gera þarf breytingar á lögunum, að þannig verði fyrirkomulaginu háttað. Mér fyndist miklu betri bragur á því að kjararáð tæki ákvarðanir um þetta í heild sinni, þ.e. um kjör okkar, frekar en að við gerðum það sjálfir.

Ég held að þeir sem hafa fylgst með umræðunni um lífeyrisréttindi alþingismanna, hæstaréttardómara, ráðherra og forseta Íslands ættu að geta verið sammála því sjónarmiði vegna þess að sú umræða hefur ekki beint verið uppbyggileg á síðustu árum. Með því að fara þá leið sem ég hef nefnt gætu stjórnmálamenn framtíðarinnar einbeitt sér að öðrum og brýnni viðfangsefnum en eigin lífeyriskjörum.