136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Snörp umskipti hafa orðið á afstöðu þingmannsins frá árinu 2003, þá taldi hann rétt að halda áfram forréttinda- og sérréttindakerfi fyrir þingmenn og hækka verulega lífeyri ráðherra og búa þannig úr garði að menn gætu hætt fimmtugir eða 55 ára eða eitthvað álíka og þó skrifað bækur og haft tekjur af bókaskrifum o.s.frv., þ.e. frumvarpið sem hann samþykkti ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og fleirum í þáverandi stjórnarliði sem var mjög í hag einmitt þeim ráðherrum sem það píndu áfram. Nú vill þingmaðurinn láta taka frá sér og öllum þingmönnum þann kaleik og setja hann yfir á embættismenn í kjararáði.

Ég hef fullan skilning á því og lít þannig á — það er kannski rétt að spyrja um það líka — að þingmaðurinn vilji þó samþykkja fyrst að afsala sér og öðrum þingmönnum þessum forréttindum og ráðherrum einnig áður en það yrði þá sent til kjararáðs. Eða er hugmyndin sú að senda núverandi kerfi eða kerfið frá 2003 til kjararáðs og láta kjararáð sumsé yfirtaka það? Rétt er að þingmaðurinn upplýsi um það úr því að hann er að skipta hér um skoðun.

Ég vil líka spyrja hann um það sem hann svaraði ekki beint áðan, hvort þá væri ekki eðlilegra að setja í kjararáð aðra þætti í kjörum þingmanna, t.d. þá vildarpunkta sem við hv. þm. Pétur Blöndal tókum afstöðu gegn í umræðunni í gær, starfskostnaðinn sem hv. þm. Pétur Blöndal efast líka um, og ég get tekið undir þær efasemdir, og dagpeningana sem þingmenn og aðrir njóta eins og embættismenn og við hv. þm. Pétur Blöndal erum sammála um að sé kerfi sem þarf að endurskoða rækilega.