136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Örstutt, ég styð þær breytingartillögur sem hv. efnahags- og skattanefnd flytur við málið. Þær eru tæknilegs eðlis og eðlilegar. Ég vil benda á að í gær ákváðu þingmenn að velja sér lífeyrissjóð öndvert við allt venjulegt fólk í landinu sem er með afskaplega mismunandi lífeyrisrétt og er með lögum skyldað til að vera í ákveðnum lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Menn eru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð sem er jafnvel með lakan rétt af því að þeir sem eru í kringum þá í stéttinni eru aldraðir og aðrir fá betri rétt af því að þeir sem eru í kringum þá, eins og í Lífeyrissjóði verslunarmanna, eru ungir. Þetta er afskaplega óréttlátt. Þingmenn völdu sér sem sagt í gær besta lífeyrissjóðinn af lífeyrissjóðum landsins.

Þegar þessari verðstöðvun lýkur um næstu áramót er spurning hvort kjararáð muni hækka laun þingmanna mikið vegna þess að búið er að skerða lífeyrisréttinn. Það er spurning og það er dálítið slæmt að fólk sem býður sig fram til þings viti ekki hver kjörin eru. Ég hef margoft bent á þetta. Ég hef reyndar lagt til að fráfarandi þing ákvæði tímanlega fyrir kosningar laun og starfskjör þingmanna næsta þings. Þá kemur upp sú skemmtilega staða að ef þingmenn ákveða kjörin mjög góð munu margir sækja um starfið, samkeppnin vex og þeir hugsanlega missa starfið. Ef kjörin eru mjög lök gerist hið öfuga. Og eins ef þingið mundi núna ákveða þingfararkaupið þokkalegt eða tiltölulega hátt og einhverjir eru að býsnast yfir því í þjóðfélaginu að þetta séu óskaplega há laun o.s.frv. getur sá hinn sami bara boðið sig fram til þings og það er jákvætt að sem flestir bjóði sig fram og að sem mest mannval sé í prófkjörum og kosningum.

Ég held að menn ættu að skoða það í stað þess að fela einhverju dómsvaldi að sjá um kjör þingmanna eins og við gerum í dag með kjararáð, það er eins konar dómur. Löggjafarvaldið felur eiginlega dómsvaldinu að ákveða kjör sín. Við ættum að skoða það frekar að fráfarandi þing ákveddi tímanlega, svo sem eins og hálfu eða einu ári fyrir kosningar hver yrðu starfskjör, laun og lífeyrisréttindi o.s.frv. komandi þings.