136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er komið að lokum umræðu um frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara sem kveður á um að þau sérréttindi sem þessir hópar hafa haft varðandi lífeyrissjóð eru afnumin. Þeir verða því hér eftir aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Ég fagna því. Þetta er virkilegur ávinningur í að koma á auknum jöfnuði hvað kjör fólks í landinu varðar. Það var fullkomlega óeðlilegt að þessi hópur fólks byggi við sérstakar aðstæður. Mín skoðun er reyndar sú að einn öflugur og góður lífeyrissjóður ætti að vera fyrir alla landsmenn og ekki væri gerður sá greinarmunur á sem núna er um lífeyrisréttindi fólks.

Það er annað mál að fást við og vonandi verður það gert, að auka jafnrétti og jafnræði hvað varðar lífeyri og að eftirlaun og kjör sem fólk býr við að loknum meginstarfsdegi eigi að vera sem jöfnust. Þar á jafnréttið að ríkja og því tel ég þessi lög mikilvægan þátt í því auk þess sem þeir hópar sem hér áttu hlut að máli sitji við sama borð og aðrir.

Ég fagna því að frumvarpið skuli vera komið á lokastig, herra forseti, og finnst það gott og öflugt skref að horfa á Alþingi gera svo.