136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að þetta er með jákvæðustu frumvörpum sem ég hef rætt á þinginu og ég held að það muni hafa mjög góð áhrif á atvinnulífið og byggingariðnaðinn, þar sem þörfin er mikil. Ég get ekki betur séð en að þær breytingar sem efnahags- og skattanefnd hefur gert á frumvarpinu styrki það enn frekar og það er mjög ánægjulegt og líkur á því að við styðjum þetta mál eins og í nefndinni.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson kom nokkuð að því sem ég ætlaði að spyrja hv. þm. Gunnar Svavarsson að. Ég heyri að hann hafi haldið uppi ákveðnum sjónarmiðum í nefndinni sem ekki hafi verið hljómgrunnur fyrir. Mér heyrðist á honum að líkur væru á því að málið færi aftur inn í nefnd og þá væntanlega til að skoða verkstæðishugmyndina nánar. Mig langar til að spyrja hann að því hvort komið hafi fram í nefndinni hvaða kostnaður hlytist af því að bæta þessu við, vegna þess að um leið og við gerum allt til að örva verðum við líka að vita hvað það kostar og einnig hvaða sjónarmið gætu helst verið hindrun þar — hann nefndi samkeppnissjónarmið. Spurning er hvort önnur sjónarmið gætu komið til greina, hvort einhverjar reglur séu á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins sem gætu komið til athugunar.

Mig langar líka til að spyrja hann að því hvort eitthvað fleira, sem gæti orðið til þess að létta undir og laga og bæta ástandið á þessu sviði, hafi komið fram í nefndinni, vegna þess að mér finnst að við þurfum nú að gera allt sem við getum til að örva atvinnulífið. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál er komið fram en mig langar til að vita hvort eitthvað fleira hafi komið fram í umræðunni í efnahags- og skattanefnd.