136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[13:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sá fylgir kaleikur þingmannsstarfinu að þingmenn þurfa alltaf með einum eða öðrum hætti að hlutast til um það hvernig þeirra kjaramálum er háttað með lögum. Þeir geta vissulega falið öðrum að úrskurða um það en sá kaleikur verður aldrei í eðli sínu frá hinu sérstaka starfi tekinn að Alþingi þarf sjálft að skipa þessum málum, annaðhvort með eigin ákvörðunum eða fela þær öðrum.

Ég fagna sérstaklega niðurstöðu þessa máls. Ég þakka hv. efnahags- og skattanefnd fyrir góða vinnu og held að þær breytingar sem gerðar voru á málinu í meðförum nefndarinnar séu til bóta, lagaskilin skýr og frumvarpið í þeim besta búningi sem það getur orðið. Niðurstaðan er gleðileg. Hér lýkur löngum og leiðinlegum kafla í þingsögunni, í pólitískum deilumálum og í samskiptum Alþingis og þjóðarinnar. Ég vona að þetta viti á gott og boði ásamt með öðru upphaf hins nýja Íslands í þeim efnum að þjóðin deili betur kjörum í heild sinni en áður hefur verið. Ég vek athygli á því, frú forseti, að það var myndun núverandi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem gerði þennan sigur mögulegan.