136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[13:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að þessi hneisa sé loks afmáð. Þó að við höfum sum greitt atkvæði gegn frumvarpinu á sínum tíma held ég að enginn í þessum sal slái sérstakar pólitískar keilur á því að fjalla um það. Málið var einfaldlega þinginu til skammar og málsmeðferðin ekki síst. Við eigum að læra af því í framhaldi af hruninu og muna héðan í frá að ekki eiga að gilda aðrar reglur um ráðherra en aðra menn í landinu, og eins hitt að við eigum aldrei að leyfa okkur að beygja svo góð vinnubrögð í þinginu eins og gert var í þessu máli sem keyrt var í gegn þegar það varðaði okkur sjálfa á örfáum dögum og með kolröngum upplýsingum um hvaða kostnaður mundi fylgja því.