136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar er mikilvæg vegna þess að hún undirstrikar vilja Alþingis Íslendinga til þess að ríkisstjórnin haldi fast á hagsmunum þjóðarinnar þegar kemur að þeim mikilvægu samningum og þeim mikilvægu viðræðum sem eru fram undan vegna baráttunnar gegn of mikilli hlýnun lofthjúpsins og jarðarinnar.

Íslenska ákvæðið svokallaða er ekki séríslenskt eins og margoft hefur komið fram. Það er almennt ákvæði sem byggist á þeirri hugsun að nauðsynlegt sé að ýta undir nýtingu og notkun hreinna orkugjafa til þess að draga úr mengun, draga úr þeim vanda sem við er að fást. Þess vegna eru það öfugmæli, sem oft hafa heyrst, að þetta ákvæði sé einhver sérstök undanþága til þess að geta mengað meira, að með þessu séum við að skera okkur úr leik með öðrum þjóðum heims í baráttunni gegn þeim vanda sem hér er um að ræða.

Íslenska ákvæðið er ekki ósk um sérmeðferð. Íslenska ákvæðið er ekki einhvers konar einangrunarstefna. Íslenska ákvæðið er staðfesting á þeim árangri sem við höfum náð í þessum málum. Staðfesting á því að við höfum verið á undan flestum þjóðum heims í því að skipta yfir í hreina orkugjafa, að ganga vel um landið okkar og framleiða með sem minnstri mengun. Það er það sem íslenska ákvæðið er. Það er mikill misskilningur að halda að hér sé um að ræða einhvers konar tilraun til þess að taka ekki þátt í alþjóðlegu samstarfi til þess að leysa þennan mikla vanda. Þvert á móti er þetta hluti af innleggi okkar til þess að varða veginn til að sýna að það eru hinar umhverfisvænu lausnir sem felast í endurnýjanlegum orkugjöfum sem skipta svo miklu máli.

Hv. þm. Atli Gíslason flutti hér um margt ágæta ræðu en ég verð þó að segja að það eru ákveðnir þættir í henni sem ég gríp kannski ekki alveg utan um. Hv. þingmaður virtist vera þeirrar skoðunar að um væri að ræða markleysu í tillögunni vegna þess að þau markmið sem við settum okkur væru tryggð nú þegar og engin hætta væri á því, og búið væri að festa ákveðið magn loftslagsheimilda eða útblástursheimilda miðað við það sem var í Kyoto-bókuninni og mundi það halda sér áfram eftir Kaupmannahafnarfundinn.

Í fyrsta lagi þetta: Ef þingmaðurinn hefur haft tíma til að kynna sér efni tillögunnar til hlítar þá kemur þetta sérstaklega fram í henni, með leyfi virðulegs forseta:

„Sérstaklega skal ríkisstjórnin tryggja að efni og tilgangur ákvörðunar 7. aðildarríkjaþings rammasamningsins nr. 14/CP.7 um áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar („íslenska ákvæðið“) haldi gildi sínu við samningsgerðina.“

Ekki er kveðið á um magn, kveðið er á um efni og tilgang sem gerir það að verkum að fullyrðingar hv. þingmanns, sem hér féllu, verða ósköp marklausar þegar betur er að gáð.

Þetta er mikið mál fyrir okkur Íslendinga, þetta ákvæði. Af hverju er þetta svona mikið mál? Þetta er mikið mál vegna þess að það tryggir, ekki bara í orði heldur á borði, yfirráðarétt okkar yfir auðlindunum. Af hverju erum við að ræða þetta mál nú? Það er vegna þess að það skiptir miklu máli í umræðu um efnahagsmál að fram komi vilji Alþingis til þess að þjóðin geti nýtt auðlindir sínar, að þetta komi fram núna vegna þess að þær ákvarðanir sem eru teknar um íslensk efnahagsmál, bæði af stjórnvöldum og líka af fjárfestum og öðrum sem til okkar horfa — að þeir viti nákvæmlega hvert við erum að fara í þessum málum, hver okkar vilji er. Ákvarðanir um t.d. byggingu orkufreks iðnaðar, hvort sem um er að ræða álstarfsemi eða eitthvað annað — þá breytir það ekki því að það þarf að liggja fyrir nákvæmlega hver þessi vilji er. Hann þarf að liggja fyrir núna. Ekki er nóg að hann liggi fyrir þá loksins við erum komin með einhverja niðurstöðu eftir Kaupmannahafnarfundinn. Þetta er atriði sem snýr að uppbyggingu atvinnulífsins.

Þetta skiptir líka máli hvað varðar yfirráðaréttinn yfir auðlindunum. Það gengur ekki að við Íslendingar göngumst undir þannig skilyrði að við getum ekki nýtt orkuauðlindirnar. Ég skal taka hér dæmi. Ríki sem eiga olíu og jarðgas geta unnið þær auðlindir sínar, nýtt sér þær til hagsbóta, flutt olíuna út. Hún er notuð við iðnframleiðslu í öðrum ríkjum og dregst þess vegna frá sem mengunarkvóti þeirra ríkja. Olíuauðlindirnar eru með öðrum orðum opnar fyrir ríkjum eins og Noregi og öðrum til þess að nýta sér. Engin takmörk þar á. En við sem eigum orkuna í iðrum jarðar og í fallvötnunum búum ekki við það sama. Við þurfum að nýta þá orku hér. Það þýðir, hvort sem menn gera það nú með gróðurhúsum eða einhverju öðru, að allir iðnferlar, öll iðnaðarstarfsemi veldur einhverri mengun hér. Sú hugsun sem er á bak við íslenska ákvæðið er að viðurkenna þetta, að við Íslendingar höfum nú þegar náð þessum árangri og það sé eðlilegt og sanngjarnt og réttlátt að við höfum þetta svigrúm. Það er óskaplega mikill barnaskapur að halda að í þessum umræðum á alþjóðavettvangi séu ríkin ekki að reyna að sækja sína hagsmuni.

Það hentar t.d. mörgum ríkjum að hafa viðmiðunarárið 1990–1991 á þessum árum. Af hverju skyldi það henta mörgum? Jú, vegna þess t.d., hvað varðar Evrópuríkin, að Austur-Evrópuríkin, sem voru mjög óhrein og mjög menguð, eru þá komin inn. Það er mikið af þægilegum og auðveldum tækifærum fyrir Evrópu til að hreinsa þar upp og ná strax miklum árangri. Við Íslendingar erum fyrir löngu komin fram úr þessum ríkjum þegar kemur að endurnýjanlegri orku og hreinum framleiðsluháttum. Það hefði verið miklu nær þegar litið til stöðu okkar að farið hefði verið mun aftar í tímann þegar menn horfa á viðmiðunarárið og þar með viðurkennt hversu miklum árangri við höfum náð. Öll ríki eru að reyna að ná sem bestri niðurstöðu fyrir sig en menn verða, af því að þjóðir heims eru að vinna í þessu saman, að gera það með málefnalegum hætti. Menn verða að horfa til umhverfisins, hvernig við náum sem mestum árangri í umhverfismálunum, og íslenska ákvæðið er einmitt dæmi um það hvernig menn geta nálgast þessa umræðu af skynsemi og með náttúruvernd að leiðarljósi. Það er lykilatriði.

Ég hafna því alfarið að verið sé að hlaupast undan merkjum í alþjóðlegu samstarfi. Ég hafna því alfarið að við séum ekki að axla okkar ábyrgð. Við byrjuðum að axla okkar ábyrgð löngu áður en flest önnur ríki hófu að gera það. Við vorum búin að klára svo mikið af því sem aðrir eru núna að burðast við að gera. Stærsti hlutinn af orkunýtingu Íslendinga kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, það er lykilatriði og við eigum þess vegna að sjálfsögðu að sækja þennan rétt.

Það kom mér á óvart að mér fannst hv. þm. Atla Gíslasonar líta fram hjá þeim málflutningi sem verið hefur uppi í umræðu um þetta ákvæði. Við höfum áður rætt þessi mál hér í þingsalnum. Í málflutningi núverandi hæstv. umhverfisráðherra hefur komið fram andstaða við þetta ákvæði. Það hefur líka komið fram í málflutningi fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, og reyndar hjá mörgum öðrum þingmönnum. Sú hugmynd að þessi tillaga njóti fulls stuðnings alls þingsins vegna þess að hún sé markleysa, þ.e. í þeirri merkingu að hér sé allt sjálfsagt og sjálfgefið og hvort eð er verði farið eftir þessu — ég held að það sé afskaplega röng túlkun.

Því miður hefur það verið þannig, og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi það réttilega hér áður, að deilur voru um þetta innan síðustu ríkisstjórnar. Það var mjög eindregin stefna Sjálfstæðisflokksins að fylgja ætti þessu svokallaða íslenska ákvæði. Við ætluðum að sækja það af festu á alþjóðavettvangi, það væri skylda okkar gagnvart íslenskri þjóð. En illu heilli var samstarfsflokkur okkar, eða í það minnsta þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, ekki þeirrar skoðunar að við ættum að halda þessum gildum á lofti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að við erum á seinustu metrunum. Við hefðum þurft að vera búin að setja meiri festu í þennan málatilbúnað okkar vegna þess að þetta gerist ekki öðruvísi en svo að ráðherrar tali við ráðherra, æðstu embættismenn tali við æðstu embættismenn og menn vinni þessu allt fylgi sem þarf. Það þarf stöðugt að minna á hvers vegna þetta ákvæði er til komið, á hvaða forsendum það er.

Það þarf að minna á þann árangur sem við Íslendingar höfum náð í umhverfismálunum, það þarf að minna á þann árangur sem við Íslendingar höfum náð í orkumálunum til þess að skilningur skapist á þessari stöðu. Ekki til að biðja um það að vera ekki með, ekki til að biðja um það að fá einhverja sérmeðferð, ekki til þess að segja að við ætlum að skorast undan í samfélagi þjóðanna. Við ætlum að taka fullan þátt. Við ætlum að bera okkar byrðar. En að sjálfsögðu gerum við kröfu um það fyrir hönd þjóðar okkar að tekið sé tillit til þess árangurs sem hefur náðst. Það er lykilatriði.

Þess vegna er þessi tillaga lögð fram og þess vegna eru á þessari tillögu svona margir þingmenn, meiri hluti þingsins. Þetta skiptir okkur miklu máli. Ég hef alla trú á því að hæstv. umhverfisráðherra muni bregðast skynsamlega við þingsályktunartillögunni og strax verði farið í að setja fullan kraft í að sækja þessa niðurstöðu. (GMJ: Þú ert bjartsýnn.) Ég er bjartsýnn, við hljótum að vera bjartsýn fyrir hönd þjóðar okkar í þessu máli.

Þeir sem fara út í svona baráttu og eru ekki bjartsýnir, þeir sem fara í það að sækja hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi og eru ekki bjartsýnir eiga auðvitað að finna sér annan starfa. Það er einmitt með því að vera bjartsýnn, með því að sækja af festu, með því að sækja af ábyrgð, sem við náum árangri. Þannig náðum við þessum árangri á sínum tíma. Þannig var það að þáverandi hæstv. umhverfisráðherra náði að vinna þessari skoðun fylgi á alþjóðavettvangi með tilstuðlan þáverandi ríkisstjórnar einmitt vegna þess að virðulegur ráðherra, sem þá var, hafði bjartsýni að leiðarljósi.

Að ætla að fara að setjast við samningaborðið og vera búinn að gefa sér það í upphafi að þetta sé allt saman vonlaust, þetta sé ekki hægt, við getum ekki náð árangri, við náum ekki fram skilningi, það hlusti enginn á þetta. Ef menn eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að halda þessum hagsmunum á lofti, að ekki sé rétt að krefjast þess að árangur Íslendinga í umhverfismálum sé viðurkenndur; ef menn eru þeirrar skoðunar að þeir vilji leggja þyngri byrðar á þjóð sína, að þeir vilji takmarka möguleika okkar til að nýta orkuauðlindir okkar; ef menn vilja ekki sækja þá möguleika sem nú þegar hafa verið sóttir; ef menn vilja ekki verja þá þá eru menn, virðulegi þingmaður, fullir af svartsýni. Þá eiga þeir að fela einhverjum öðrum að sækja íslenska hagsmuni.

Nú er það svo að hv. þingmaður er einn flytjandi tillögunnar um þetta mál. Ég tek það sem svo að hann vilji bæði berja mér og öðrum kapp í kinn og hlakka ég til þess að heyra ræðu hans hér á eftir. Ég veit að ekki eru svo margir þingmenn eftir í hans ágæta flokki, ég reikna með því að bæði hann og formaðurinn komi og tali hér. Það mun koma fram hér í umræðunum að allir flokkar þingsins, nema Vinstri grænir og Samfylkingin, styðja þetta mál ásamt hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Við teljum öll að þetta sé það mikilvægt að við viljum setja þetta fram með þessum hætti, það er grundvallaratriðið.

Málsmeðferðin er auðvitað sérstök. Hæstv. ráðherra umhverfismála vill fá að tjá sig um málið og það verður þá gert í næstu viku. Gerð var ákveðin undantekning í málsmeðferðinni. (Gripið fram í: Þó það nú væri.) Að sjálfsögðu, enda var undanþágan veitt. Aðalatriðið er að sú ræða verði haldin áður en kemur að næsta fundi umhverfisnefndarinnar og þá skiptir máli að málið gangi hratt og vel í gegn, að ekki sé verið að tefja þetta mikilvæga mál. Þetta er eitt af þeim málum sem er sannkallað atvinnuuppbyggingarmál.

Þjóð sem stendur kannski frammi fyrir 20.000 manna atvinnuleysi hér á næstu mánuðum hefur ekki efni á öðru en því, hv. þm. Atli Gíslason, að sækja hagsmuni sína, sækja rétt sinn, sækja möguleika sína til að nýta auðlindir sínar til þess að geta byggt upp atvinnu í landinu. Það er lykilatriði. Það eigum við að gera. Það er þess vegna sem svona margir hv. þingmenn eru hér á þessari tillögu. Það er þess vegna sem meiri hluti þingmanna er hér að baki. Það er þess vegna sem við ætlumst til að hæstv. ráðherra sæki íslenska hagsmuni af krafti og af bjartsýni.