136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:44]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Af hverju þurfum við þá undanþágu sem við höfum haft? Það er til þess að geta skapað fleira fólki atvinnu og aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Hv. þm. og fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, á þakkir skildar fyrir að tryggja okkur, á meðan hún var umhverfisráðherra, undanþágu eða sérákvæði fyrir Ísland varðandi losunarkvóta sem er í gildi til 2012. Nú þurfum við að reyna að fá sambærilegan kvóta áfram og undanþágu frá þeim reglum sem alþjóðasamfélagið fer eftir.

Það er rétt að það munar töluverðu hvort við erum með álver sem notar olíu, jarðgas eða kol. Það er auðvitað mikill munur á því og rafmagni. Ef við notum rafmagn sem orkugjafa í álver er um að ræða vistvæna raforku og vistvænt álver, ef hægt er að tala um það.

Það er sorglegt þegar menn bera saman rafmagn sem notað er til garðyrkju og rafmagn notað er til annarrar framleiðslu að segja að ekki sé hægt að lækka rafmagn til garðyrkjubænda vegna stóriðju. Það er alls ekki rétt að bera þessa hluti saman, það er eins og að bera saman appelsínu og epli. Það er hægt að lækka raforku til garðyrkjubænda þó að verið sé að framleiða ál, þetta eru tveir alveg gjörsamlega ólíkir heimar. Þegar menn nota slík rök í umræðunni um þessi mál eru þeir illa staddir.

Við höfum hreina orku á Íslandi, bæði jarðorku og fallvötn. Við eigum að halda áfram að nýta þá orku. Við gerum það nú þegar með mjög góðum árangri. Við erum búin að leggja hitaveitur í bróðurpartinn af íbúðarhúsnæði á Íslandi og öllu öðru húsnæði og er það hið besta mál.

Það sem veldur mér áhyggjum er hvernig Samfylkingin tekur á þessum málum. Við vitum hvar við höfum Vinstri græn, þau vilja alls ekki fara í þess háttar aðgerðir, að reyna að fá undanþágu. Fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, vildi það ekki heldur. Samfylkingin er því tvískipt í þessu máli, hvernig hún vill taka á orkumálum, umhverfismálum og stóriðjuframkvæmdum. Þar virðast vera skiptar skoðanir og það er sorglegt til þess að vita nú þegar við stöndum frammi fyrir því að það eru ekki lengur 14 þúsund manns atvinnulausir heldur á milli 16 og 17 þúsund og fer ört fjölgandi, að við reynum þá ekki öll saman að koma mannaflsfrekum iðnaði í gang eins og álveri á Bakka og í Helguvík, sem eru mjög brýn verkefni. Við þurfum að halda áfram að hugsa til framtíðar og nýta okkur þá möguleika sem við eigum úti um allt land, bæði orku í iðrum jarðar og fallvötn. Með því framleiðum við orku sem við getum notað við alls konar framleiðslu, búið til gjaldeyristekjur og skapað fólki atvinnu. Það er það sem við þurfum.

Við getum ekki lagað til í velferðarkerfinu, á sjúkrahúsunum eða gert neitt fyrir öryrkja og aldraða, ef við sköpum ekki gjaldeyristekjur. Um það snýst málið, að afla tekna og búa til tekjur, skapa atvinnu, þá getum við lifað sómasamlega í þessu þjóðfélagi. En það byggist á því að við nýtum auðlindirnar sem við eigum til að búa til gjaldeyri og skapa atvinnu. Það er ekki flókið og er atvinnumál í víðasta skilningi. Með nýtingu á auðlindunum er hægt að örva atvinnu og auka gjaldeyristekjur. Það er það sem við þurfum að gera, það er aldrei nauðsynlegra en nú.

Ég sé að hæstv. iðnaðarráðherra er mættur í salinn og er ágætt að hann sé til svara fyrir ríkisstjórnina og taki þátt í þessari umræðu. Eins og ég hef oft sagt áður ber ég mikið traust til hans og vænti þess að hann standi sig í þessum málum innan ríkisstjórnarinnar. Hann er eini kletturinn sem stendur þar upp úr og ég býst við því að hann muni standa við samninga bæði varðandi Bakka við Húsavík og Helguvík á Suðurnesjum. Ég vonast til þess að hann láti ekki deigan síga og berji það í gegn að menn nýti þessar auðlindir.

Við ræðum hér um að fá áframhaldandi undanþágu, hið svokallaða íslenska ákvæði, vegna þess að við nýtum hreina orku hér á landi. Ég treysti því og vonast til þess að Alþingi hafi vit á því að leggja mikla vinnu í það og reyna að tryggja að við fáum þessa undanþágu áfram því að það getur hjálpað okkur hraðar út úr þeim erfiðleikum sem við erum í í dag.