136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega þá umræðu sem hér hefur verið, hún hefur verið gagnleg.

Einn hv. þingmaður spurði um dæmi um verkefni sem réttlætt gæti það ákvæði sem við erum að berjast fyrir.

Það er ekki spurning einstök verkefni eða einstakar framkvæmdir heldur hvort við Íslendingar höldum áfram að hafa vald á auðlindum okkar. Á tyllidögum er talað um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, mikilvægi þess að hún haldi áfram og sé háð á hverjum degi. Þetta er hluti af þeirri baráttu. Þetta er hluti af þeirri baráttu að við ráðum yfir auðlindum okkar og að við getum nýtt þær þjóðinni til heilla.

Ég varð ánægður að sjá virðulegan og hæstv. iðnaðarráðherra ganga í salinn áðan. Ég hef mikla trú á að hann og fleiri ágætir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn muni knýja þetta mál áfram af því að þörfin er alveg gríðarleg. Við stöndum frammi fyrir miklu verkefni, að byggja upp íslenskt atvinnulíf, að búa til yfir 20 þúsund störf á næstu missirum og árum og það gerum við ekki ef við gefum frá okkur möguleikann á að nýta orkulindir okkar. Það er lykilatriði. Það er það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á, það er það sem við þurfum að berjast fyrir. Það er það sem við þurfum að áminna ríkisstjórnina um, að sækja þessa hagsmuni af festu. Það er lykilatriði.