136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, um breytingu á VII. viðauka og bókun 37 við EES.

373. mál
[15:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Með þeirri þingsályktunartillögu sem ég mæli fyrir er verið að leita heimilda Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, um breytingu á VII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/36/EB.

Eins og jafnan er með fyrri ákvarðanir er gerð grein fyrir efni hennar í tillögunni og ákvörðunin sjálf er prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Sú tilskipun sem er vísað til, nr. 2005/36/EB, fjallar um viðurkenningu á menntun til starfa sem eru lögvernduð og krefjast þannig að aflað sé faglegrar menntunar og hæfis áður en heimilt er að hefja störf á viðkomandi sviði.

Rétt er að taka fram að með tilskipuninni verða engar grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á EES-svæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður. Þekking og starfsreynsla í einu ríki verður áfram tekin með í reikninginn þegar uppfylla þarf ákveðin skilyrði í öðru ríki. Viðkomandi aðilum er jafnframt gefinn kostur á að bæta við þáttum sem hugsanlega er talið vanta upp á af viðkomandi stjórnvöldum. Það er von manna að með hinni nýju tilskipun verði framkvæmdin einfaldari, hún verði skilvirkari m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og sömuleiðis hvernig hátta skal samskiptum eða samskiptakerfi stjórnvalda sem annast slíkar viðurkenningar.

Með tilskipun 2005/36/EB eru hvorki fleiri né færri en 15 fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina, bæði tilskipanir almenna kerfisins og hinar svokölluðu geiratilskipanir sem varða t.d. lækna, hjúkrunarfræðinga og fleiri stéttir. Í meginatriðum, frú forseti, er ekki verið að breyta tilhögun viðurkenningar prófskírteina sem neinu nemur frá því sem verið hefur samkvæmt því fyrirkomulagi sem áður gilti. Öll meginskilyrði viðurkenningar og málsmeðferð er hin sama og áður og áfram liggur líka til grundvallar kerfinu sérstök skilgreining á menntunarstigum eða -þrepum.

Gert er ráð fyrir því, frú forseti, að ráðuneyti menntamála innleiði tilskipun 2005/36/EB með því að setja ný lög um viðurkenningu og menntun á prófskírteinum, m.a. til þess að taka inn ákvæði um frjálsa veitingu þjónustu, sameiginleg grunnskilyrði og um persónuverndarmál tengd samvinnu stjórnvalda og framkvæmdarvalda samkvæmt V. bálk tilskipunarinnar. Frumvarp þar að lútandi er komið á rekspöl í ráðuneytinu undir verklegri forsjá hæstv. menntamálaráðherra og þess er að vænta að það verði lagt fram ekki á þessu þingi heldur haustið 2009.

Ég leyfi mér, frú forseti, að leggja það allra náðarsamlegast til að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.