136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég mátti til með að koma í ræðustól aftur, þó að ég vilji ekki lengja umræðuna, vegna þess dapurlega tóns sem var hjá hv. þingmanni (VS: Sem yfirleitt er svo bjartsýn.) sem yfirleitt er þó bjartsýn og á nú góðan þátt í álinu sem stendur undir lífskjörum Íslendinga sem stendur.

Mér finnst öll umræðan, bæði hjá fréttamönnum, fjölmiðlum og alls staðar og hjá þingmönnum og úti um allt þjóðfélagið, þess eðlis að menn horfa á hálftómu flöskuna en ekki þá hálffullu. Þeir fyllast mikilli depurð yfir því að flaskan er hálftóm.

Auðvitað hafa margir lent í miklum vandræðum, það hefur verið gert ráð fyrir að u.þ.b. 10, 15, 20%, jafnvel 25% þjóðarinnar séu í vandræðum. En það segir mér líka að 80% eða 75% hafa ekki lent í vandræðum. Horfum á það, meginhluti þjóðarinnar hefur ekki lent í vandræðum. Auðvitað er verðbólga sem kemur niður á öllu, að sjálfsögðu, en meginhlutinn er í góðu lagi og hann á að geta staðið undir því sem við erum að glíma við. Við eigum að horfa til framtíðar og segja: Hér er verk að vinna, en ekki að kjökra niður í skut á bátnum og sjá ekkert fram úr augunum. Ég skora á hv. þingmann að horfa frekar á hálffullu flöskuna með bjartsýni og segja að auðvitað ráðum við við þetta. Árið 2010 mun renna upp og þá fer að vænkast hjá okkur. Við skulum ekki horfa alfarið á dökku hliðarnar og gefast upp.