136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég má til með að svara þessum makalausu tillögum framsóknarmanna. Ég vildi helst ekki gera það af því að þær eru svo furðulegar en ég ætla samt að gera það hér með.

Tillögurnar ganga út á það að fólk sem skuldar mikið eigi að fá endurgreitt frá einhverjum. Menn tala um að það séu kröfuhafarnir. Halda menn virkilega, herra forseti, að kröfuhafarnir muni gefa Íslendingum einhver hundruð milljarða? Ónei, þeir eru búnir að tapa hér óskaplegum peningum, 12.000 milljörðum að sagt er. Þeir ætla sér ekki að tapa miklu meira og fara að gefa Íslendingum einhverja peninga. (VS: Þú skilur þetta ekki.) Og síst af öllu — ég skil þetta mjög vel, ég veit nákvæmlega hvaða afskriftasjóður er. Það ættu hins vegar framsóknarmenn að spyrja bankamenn um, hvað er eiginlega afskriftasjóður? Og ef þeir spyrja að því þá er þessi hugmynd dauð. (Gripið fram í: Nei.) Jú. Vegna þess að afskriftasjóður er til að standa undir væntanlegum gjaldþrotum og töpum og segjum að af 100 fyrirtækjum fari 20 á hausinn þá þýðir það að afskriftasjóðurinn er 20%, en menn vita ekki hverjir fara á hausinn.

Ef menn ætla sér að lækka skuldirnar hjá öllum um 20% munu þeir sem gátu borgað græða á því en hinir sem gátu ekki borgað munu eftir sem áður ekki geta borgað, þeir fara á hausinn hvort sem er. Og einhver borgar þetta og það verður alltaf á endanum skattgreiðandinn.

Og vita menn, herra forseti, hvaða skattgreiðandi það er sem borgar mest? Það er sá sem bjó í fjögurra herbergja íbúðinni sinni, keypti ekki einbýlishús eins og vinur hans. Sá sem keyrði á gömlu dósinni sinni en keypti ekki jeppa eins og vinur hans. (VS: Farðu að hætta þessu.) Hann mun borga, hann skuldar lítið. Hann var skynsamur og hann skuldar lítið. En hinn sem er með hundrað milljónir í skuldir á að fá 20 milljónir gefnar og hver skyldi greiða þær annar en vinurinn í blokkinni?

Ef mönnum finnst þetta réttlátt eru þeir á einhverri annarri línu en ég. Mér finnst það alveg galið að refsa þeim sem hafa sýnt ráðdeildarsemi. Það á að refsa þeim sem sýnt ráðdeildarsemi, hagsýni og sparsemi vegna þess að það verða á endanum íslenskir skattgreiðendur sem greiða þetta, hvort sem það er hjá Íbúðalánasjóði eða í afskriftum bankanna. Erlendu kröfuhöfunum dettur ekki í hug að borga þetta, að menn skuli stinga upp á því.

Ef menn mundu hins vegar vilja setja peninga inn í íslensk atvinnulíf til að örva það, til að koma því í gang, þá gerðu menn ekki svona. Þá mundu þeir láta öryrkja fá peninga, nokkra tugi milljarða. Þá mundu þeir láta atvinnulausa fá vinnu með því að búa til vinnu handa þeim. Það er miklu skynsamlegra en að gefa þeim sem skulduðu svona mikið, sem fóru sér að voða með skuldsetningum. (Gripið fram í.) Það er nefnilega málið. Framsóknarmenn ætla að vera eins og einhver sagði, Hrói höttur með öfugum formerkjum, takandi af fátækum og láta þá ríku fá.