136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bera ábyrgð á verðandi formanni Sjálfstæðisflokksins, hugsanlega, hvað hann segir og gerir. Ég ber ábyrgð á því sem ég segi. (VS: Þú ert þá bara ósammála honum.) Ég er hjartanlega ósammála ef þetta er rétt eftir haft.

Afskriftasjóður er þannig að ef menn gera ráð fyrir því og setja 50% í afskriftasjóð þá reikna þeir með að annað hvert fyrirtæki fari á hausinn og önnur hver íbúð og að annar hver bíll verði seldur á uppboði. Það er bara inni í þeim pakka. Það þýðir að annað hvert fyrirtæki fer á hausinn. Kröfuhafarnir þurfa að samþykkja þetta annars gerist ekki neitt, annars fara þeir í mál. Og ef annað hvert fyrirtæki fer á hausinn geta menn að sjálfsögðu ekki farið að lækka lánin hjá hinum sem geta borgað um 50%. Að sjálfsögðu ekki. Menn þurfa að átta sig á hvað afskriftasjóður er. Ég ráðlegg hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að tala við bankamenn og spyrja þá hvað afskriftasjóður er. Ef menn ætla að taka út úr afskriftasjóðnum þá er það í fyrsta skipti í veraldarsögunni að einhver sem fer á hausinn og lendir í miklum vandræðum græðir á öllu saman. Það væri aldeilis undarlegt að við það að Ísland lendir í þessum miklu vandræðum gætum við bara farið að lækka skuldir hjá allri þjóðinni. Það væru nú aldeilis flottheit, það væri nú aldeilis gróði.

Ég skil þetta ekki, að þegar menn lenda illa og fara á hausinn með heila þjóð, með heilt bankakerfi, þá ætli þjóðin að lækka skuldirnar hjá sér. Það er undarleg hagspeki. Kröfuhafarnir mundu aldrei samþykkja það.

Það sem menn gera ráð fyrir er að helmingurinn af þessum kröfum sé tapaður vegna þess að skuldararnir geta ekki greitt, aðallega fyrirtæki. Og ef þeir geta ekki greitt þá geta þeir ekkert frekar greitt þó að þeir fái helmingslækkun, hugsanlega einhverjir, en margir munu ekki geta greitt neitt frekar. Þeir sem hins vegar gætu greitt, helmingurinn, fá helmingslækkun líka og þar kemur peningurinn sem skattgreiðendur þurfa að borga, því að á endanum verða það skattgreiðendur sem borga þetta allt saman.