136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[16:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi ekki alveg það sem hv. þingmaður sagði. Hann sagði að Bretar hefðu tekið yfir amerískar reglur og minnkað þær um 10% til þess að ná til sín fyrirtækjum og það væri ástæðan fyrir þeim vandræðum sem væru í Bretlandi. Þetta er náttúrlega mjög sérkennileg kenning og ég vildi gjarnan fá nánari útskýringu á því hvað þetta þýðir. Þýðir þetta að framkvæmdin á reglunum hafi verið 10% lakari en í Bandaríkjunum eða þýðir þetta það að þeir hafi tekið úr reglunum svona 10% af ákvæðunum eða skilyrðunum til þess að lokka til sín fyrirtæki?

Það er nefnilega þannig að eitt er lagasetning og annað er framkvæmd laga. Því miður er oft misbrestur á framkvæmd laga bæði vegna þess að hún rekst á persónuvernd og alls konar önnur atriði sem menn telja sig vera að vernda, geta ekki veitt upplýsingar, eða hreinlega að menn eru bara ekki nægilega vakandi í framkvæmdinni. Nú ætla ég ekki að leggja dóm á það — það á eftir að koma í ljós — hvað olli hruninu á Íslandi. Það eru eflaust margir þættir. Einn af þeim er þingið. Ég ræddi það nú í ræðu 30. október þar sem ég tók á mig mína ábyrgð á því að löggjafarstarfið var ekki nægilega gott. En eitt er líka framkvæmdin. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um hvort sé að ræða í Bretlandi.

Það er reyndar mjög merkileg kenning að ef veikari framkvæmd eða veikari lagasetning á að valda fyrirtækjum sérstökum vandræðum. Ég hélt að það væri akkúrat öfugt.