136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[16:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Beiting Breta á hryðjuverkalöggjöfinni var alveg svívirðileg enda hafði hún svo sem ekkert sérstaklega að gera með það lagaumhverfi sem gildir eða hefur gilt um fjármálastarfsemi í Bretlandi. Hún er ekki tengd því sem ég var að tala um. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að beiting hryðjuverkalaganna var svívirðileg og að sjálfsögðu fordæmanleg.

Hv. þingmaður nefndi Lehman Brothers. Það eru vafalaust ýmsar ástæður fyrir því að illa fór hjá mörgum af burðarstoðunum í fjármálakerfinu vítt og breitt um heiminn. Sumir telja að einn orsakavaldurinn í falli Lehman Brothers hafi einmitt verið að þar var verið að sulla saman fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi á mjög óheppilegan hátt. Það er málefni sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum oft vakið máls á í sölum Alþingis, að það þyrfti með einhverjum hætti að skilja betur á milli.

Ég held reyndar að menn átti sig betur í umræðunni núna á mikilvægi þess að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi með einhverjum hætti, hvort sem hann er hreinn og klár fyrirtækjaaðskilnaður, bókhaldslegur eða eitthvað þess háttar, að menn hafi farið inn á braut sem er óheppileg hvað varðar Lehman Brothers.

Ég hygg að aðskilnaður á milli fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, m.a. í Bandaríkjunum, sé almennt nokkuð ríkjandi. Ég segi það þó með nokkrum fyrirvara.