136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[16:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hefur verið rætt stuttlega, bæði í þessu húsi og annars staðar, hvort skynsamlegt sé að hafa einhvers konar forval. Ég hygg að nú þegar kosningar ber svona brátt að hafi menn verið að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að velja á lista með skjótum hætti. Hér um bil allir flokkar velja núna um helgina eða þá næstu. Það hefur auðvitað áhrif á þingstörfin.

Ég held að þetta sé eitt af því sem við eigum að horfa til og sem við verðum að velta fyrir okkur. Við höfum ekki talað mjög mikið um breytingar á kosningalöggjöfinni undanfarin missiri. Við höfum talað um að gera þurfi ákveðnar breytingar en við ekki talað um einstakar útfærslur.

En þegar málið fer á dagskrá koma ýmsar aðrar hugmyndir fram sem geta verið miklu betri en þær sem liggja fyrir. Það er það sem ég kalla eftir, að málið fái að þroskast í þinginu og úti í samfélaginu. Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur og okkur öll sem kjósum í þessu landi að við fáum tilfinningu fyrir því í hvaða átt er verið að stefna.

Þegar maður reynir að útskýra það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki endilega alveg skýrt í huga fólks að það eigi að fara að kjósa eftir því núna í vor vegna þess að málið er svo nýtt og algjörlega óljóst. Það er það sem ég átta mig ekki á.

Af hverju er verið að bjóða fólkinu í landinu upp á þetta? Af hverju er verið að rugla fólkið í landinu með þessu? Af hverju tölum við ekki frekar um þau mál sem ég taldi upp áðan og sem við þurfum að skoða? Við afgreiðum þetta mál með eðlilegum hætti í haust, ræðum það hvarvetna í samfélaginu. Það á t.d. eftir að ræða það á vettvangi lögfræðinnar. Það er fróðlegt að vita hvaða sjónarmið eru þar uppi. Hefur þetta verið rætt mikið í háskólasamfélaginu? Á kaffistofum? Þetta þarf allt að eiga sér eðlilega umræðu sem ég legg höfuðáherslu á (Forseti hringir.) að fari fram núna.