136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[16:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Efnahagshrunið sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi í lok tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins er vissulega mikið úrlausnarefni úr að greiða og ummæli forsætisráðherra okkar, sem ekki voru kannski nákvæmlega endursögð í fjölmiðlum, lutu að því að það mundi mæða mikið á Alþingi að koma þeim fjölmörgu og brýnu björgunarmálum hér í gegn sem við vitum að þingið þarf að reyna að afgreiða áður en það fer heim í kosningar. Þau voru ekki í niðrandi merkingu sögð, heldur þvert á móti af skilningi á því að mikið mun mæða á þinginu.

En lýðræðið er líka mikilvægt og ég held að það sé líka mikilvægt verkefni að koma til móts við þjóðina og háværar kröfur hennar um aukið lýðræði sem tengist m.a. þeim atburðum sem orðið hafa á Íslandi. Að öðru leyti verð ég að segja að ég veit ekki hvort hv. þm. Sturla Böðvarsson og fyrrverandi forseti Alþingis er best manna til þess fallinn að mæra virðingu Alþingis eins og hann talar til sumra starfsbræðra sinna, t.d. í blaðagrein í dag þar sem hann segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Aðgerða sem ráðherra Vinstri grænna hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi verið skipulagðar í skjóli Vinstri grænna bæði innan þingsins og utan.“

Þetta eru einhver ömurlegustu ummæli sem ég hef lengi séð frá stjórnmálamanni. Þetta eru ómagaorð, þetta eru órökstuddar og rangar dylgjur um starfsbræður hv. þingmanns í stjórnmálum og ég lýsi sérstakri skömm minni á því að Sturla Böðvarsson, hv. þingmaður og fyrrverandi forseti Alþingis, skuli leyfa sér málflutning af þessu tagi. Ég kýs að nota ræðustól á Alþingi til að lýsa skömm minni á þessum málflutningi hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og mun ekki svara því að öðru leyti.