136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[16:59]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér sannaðist það að sannleikanum verður hver sárreiðastur þegar hlustað er á stóryrði og gífuryrði hæstv. fjármálaráðherra. Það mæðir vissulega mikið á Alþingi og það mæddi vissulega mikið á Alþingi í haust og það sem af er vetri. Ég tel að alþingismenn hafi langflestir staðið bærilega vel í fæturna og fengist við þau mikilvægu verkefni sem um er að véla á hinu háa Alþingi. Gífuryrði í garð einstakra þingmanna héðan úr ræðustól af hálfu hæstv. fjármálaráðherra vekja auðvitað athygli og þau snerta þingmenn, vissulega. En ég hvet hæstv. fjármálaráðherra, vegna þeirra orða sem hann viðhafði hér, til að kynna sér það sem bókað er í fundargerð forsætisnefndar fimmtudaginn 22. janúar sl. Þá gæti hann kannski áttað sig á því um hvað ég er að tala.