136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í nefndaráliti sem hv. þm. Atli Gíslason lagði fram vegna þeirra laga sem ég hef hér tekið til umræðu og brjóta gegn stjórnarskránni segir, með leyfi forseta:

„Þar er breytingartillaga við 2. gr. tekin upp 116. gr. gjaldþrotaskiptalaga án þess að lögfesta um leið ákvæði 117. gr. Með því er tekinn af stjórnarskrárbundinn réttur einstaklinga og lögaðila til að leita til dómstóla um ágreining auk annarra frávika.“

Stjórnarskrárbundinn réttur einstaklinga og lögaðila af þeim tekinn. Það var á hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að heyra að það væri allt í lagi að brjóta stjórnarskrána, svona í bili ef bara önnur lagasmíð væri í farvatninu sem mundi leiðrétta það innan tíðar. Það var niðurstaða hans sem hann lýsti hér áðan sem forseti Alþingis í því máli. Það er nákvæmlega það sem ég sagði, hér fóru lögin í gegn þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir og hefur nú verið staðfest fyrir dómi að voru lögleysa og stjórnarskrárbrot.

Hv. þingmaður verður ekkert maður að meiri þó að hann beri á mig lygar og ég ætla hvorki að kveinka mér undan því né vísa því til föðurhúsanna vegna þess að ég tel þennan hv. þingmann ekki marktækan í þeim efnum.