136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:10]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér er á dagskrá mál sem varðar grundvallaratriði í því hvernig við kjósum í þessu landi. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að það sé rætt en þá ber svo við að næstum enginn stjórnarsinni er í salnum og þeir sem eru í salnum taka til við að tala um eitthvað allt annað en þetta mál snýst um. Af hverju vill enginn þeirra tala við okkur um það mál sem hér er verið að ræða, af hverju vilja menn ekki gera það? (EBS: Við komumst ekki að, þið eruð svo mörg á mælendaskrá.) Af hverju vilja menn ekki tala um að þetta frumvarp, hugsanlega, ef menn fallast ekki á að það þurfi aukinn meiri hluta, er þá líka brot á stjórnarskránni? Af hverju vill enginn tala um það, hvernig stendur á því að menn koma hér og ráðast á einstaka menn út af allt öðru máli en því sem hér á að ræða? Af hverju megum við ekki tala um þetta frumvarp sem snýr að grundvallaratriði í þessu landi? Og aftur á morgun, stjórnarskráin, ætlar enginn að vera viðstaddur þá? Ætlar enginn að taka þátt í þeirri umræðu? Hvað á þetta eiginlega að þýða?