136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:12]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mismunandi sjónarmið kunna að vera um það hver séu brýnustu verkefnin sem standa eigi í við þær aðstæður sem við búum við í dag. Það liggur fyrir að frumvarpið sem hér er til umræðu, um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, var sett í ákveðinn forgang við umræðu í gær. Jafnframt er ákveðið að hér skuli halda áfram og reyna að klára þá umræðu sem um er að ræða.

Ég hefði talið að það væru mörg önnur brýnni mál sem Alþingi þyrfti að sinna heldur en einmitt þetta frumvarp á þessum tíma. Ég hefði talið að brýnna væri að sinna málum sem varða hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu heldur en það frumvarp sem hér er um að ræða. Ég skal ekki orðlengja það heldur fjalla um efni þessa frumvarps og hver séu brýnustu verkefnin varðandi breytingar á kosningalögum og stjórnarskrá.

Mesta óréttlætið sem við búum við í dag hvað kosningalög varðar er sú staðreynd að kosningarréttur landsmanna er ekki jafn. Um er að ræða að verulegur munur er á atkvæðum fólks. Það munar allt að helmingi á vægi atkvæðis hvers kjósanda.

Í stjórnarskránni, 31. gr., er kveðið á um eftirfarandi:

„Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.“

Þessi ákvæði er að finna í kosningalögum, í 8. gr. En mismunun er lögfest. Í stjórnarskrá lýðveldisins er lögfest óréttlæti þess efnis að allt að helmingsmunur skuli vera á milli kjósenda, þ.e. að kjósendur í ákveðnum kjördæmum skuli hafa helmingi meira atkvæðavægi en kjósendur í öðrum kjördæmum. Það er óviðunandi óréttlæti að ekki skuli hafa verið hægt að þurrka þetta í burtu og miða við það að kjósendur hafi allir sama rétt, einn maður eitt atkvæði. Það er grundvallaratriði og grundvallarforsenda lýðræðis. Það hefði verið það brýnasta sem hefði þurft að gera varðandi breytingar á stjórnarskrá, varðandi breytingar á kosningalögum, að koma á jafnrétti og jafnræði fólksins í landinu þannig að hver maður hefði eitt atkvæði óháð því hvar hann býr í landinu.

Þetta er spurningin um lýðkjör. Og það er nú einu sinni þannig að mannréttindi og kosningarréttur eru ekki fyrir fermílur, fjöll, akra eða engi heldur fyrir fólk. Fólk á að hafa sömu mannréttindi, sömu lýðréttindi, óháð því hvar það býr á landinu. Þess vegna er brýnt að koma á breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá hvað þetta varðar. Það er forgangsatriði sem ætti að vera til umræðu varðandi breytingar á kosningalögum og komi fram breytingar á stjórnarskipunarlögum er það forgangsatriði að koma á jöfnuði milli kjósenda í landinu.

Það frumvarp sem hér er til umræðu fjallar um það að heimilað sé að bjóða fram óraðaða framboðslista. Þrátt fyrir að í greinargerð sé talað um að færi gefist á persónukjöri í kosningum og talað um óraðaða framboðslista þá eru þeir í raun ekki óraðaðir. Þeir eru raðaðir miðað við ákvæði lagafrumvarpsins, þeir eru raðaðir eftir stafrófsröð. Hins vegar er um það að ræða að hlutað er til um það hvar byrjað er í stafrófsröðinni, og það er í sjálfu sér ekki óraðaður listi.

Ef hluta ætti til um það og listi væri óraðaður væri í raun verið að miða við að hlutað væri til um hvert einasta sæti. Það væri þá miklu eðlilegra en að hafa þann hátt á sem frumvarpið gerir ráð fyrir þar sem eingöngu er hlutað til einu sinni og síðan raðast stafrófsröðin áfram eftir það, þ.e. í staðinn fyrir hugsanlega að byrja á A þá byrja menn á G eða S og síðan í beinu framhaldi þangað til komið er að — með svipuðum hætti og iðulega er við nafnakall hér í kosningum á Alþingi.

Það eru nokkur atriði sem tæknilega eru ágalli á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er í 2. gr. talað um það að ef kemur fram listi þar sem fleiri nöfn eru á en kjósa skal skuli hluta til um þau nöfn sem skulu felld á brott. Þá eru menn komnir út í það að teningur ráði kasti um það hvort viðkomandi sé í framboði eða ekki. Nú er sá háttur á ef um er að ræða slíka hluti þá eru það þeir sem aftastir eru sem falla brott af listanum en þarna gæti það þess vegna verið í tölvutæku formi hver væri í framboði fyrir viðkomandi framboð, þannig að það væri þurrkað út eftir atvikum svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þá er verið að tala um það að yfirkjörstjórn skuli tölusetja nöfn eftir stafrófsröð og hluta síðan um það hver skuli vera efstur á listanum. Eins og ég vísaði til hér áðan þá er það spurning: Af hverju ekki að hluta til um alla?

Fyrir liggur að ef þessi háttur yrði að veruleika væri um óskaplega flókinn hlut að ræða. Það væri erfitt fyrir kjósandann að átta sig — það væri erfitt að lesa í vilja kjósandans þegar um slíka hluti er að ræða sem hér er lagt til og spurningin er hver ávinningurinn eigi að verða.

Fólk skipar sér í stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtök og ágreiningur er um það hverjir séu líklegastir til að geta verið bestu málsvarar viðkomandi stjórnmálasamtaka eða stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokkarnir hafa fullt leyfi til þess að ákveða það með hvaða hætti þeir velja fulltrúa sína og gera það með mismunandi hætti. Sumir með prófkjörum, aðrir með því að stilla upp af trúnaðarmannaráði og/eða sérstökum kjörstjórnum. Í sjálfu sér getur það allt saman verið gott og blessað. Spurningin gæti kannski verið um það að koma í veg fyrir að of mikið flokksræði myndist í því lýðræðiskerfi sem við búum við.

Það er ákveðið viðfangsefni að berjast gegn flokksræðinu og reyna að tryggja sem frjálsasta stöðu þeirra sem starfa innan stjórnmálaflokka en ekki er verið að leysa úr því viðfangsefni með því sem hér um ræðir. Miklu frekar er verið að búa til vandamál sem hægt er að vera laus við. (PHB: Það er verið að auka það.) Það er verið að auka við vandamálið. Í sjálfu sér verður ekki séð að það leysi eitt eða neitt eða sé líklegt til að koma á skilvirkara lýðræði í landinu eða líklegra til þess að koma á meiri festu í stjórnarframkvæmd.

Ég skoðaði athugasemdir í greinargerð við frumvarpið og leitaði að því hvort einhver fordæmi væru nefnd um það að nokkur svona skipan væri til staðar í þeim lýðræðislöndum sem við eigum einhvern skyldleika við. Og svo er ekki. Það er verið að nefna það að t.d. í Finnlandi og í Danmörku hafi menn heimildir til þess að breyta töluröð á listum og geti, auk þess að kjósa flokkslista, kosið sérstakan frambjóðanda. Það er í sjálfu sér allra góðra gjalda vert. Það er spurning hvort ekki væri ástæða til að skoða slíkar breytingar á kosningalögum þannig að menn sem njóta sérstakra persónuvinsælda gætu hugsanlega náð kjöri þó að þeir væru kannski ekki skráðir ofarlega á þeim flokkslista sem þeir eiga sæti á.

Mig minnir að í einu tilviki í Danmörku hafi t.d. komið til þess, af því þar eru reglur um útstrikanir og breytingar á listum með öðrum hætti en hér — þetta er nú sagt allt eftir minni — að í borgarstjórnarkosningum í einni útborg Kaupmannahafnar hafi maður sem var í heiðurssætinu, sem var fyrrverandi formaður danska Íhaldsflokksins, verið færður efst og verið kosinn í borgarstjórnina þvert gegn vilja sínum. Kjósendur vildu færa manninn í heiðurssætinu í fyrsta sætið.

Í sjálfu sér væri það góðra gjalda vert að skoða breytingar á kosningalögum hvað þetta varðar. En ekki er verið að gera það hér. Hér er verið að leggja til algjöran rugling í því hvernig stilla eigi upp. Ég get ómögulega samþykkt að það horfi til neinna framfara eða aukins eða bætts lýðræðis í landinu.

Ef menn vildu skoða breytingar sem gætu hamlað flokksræði og væru líklegar til þess að koma á öðrum hlutum en þeim sem hér er um að ræða er til miklu virkari leið til þess og það er að gera breytingar á 43. gr., sbr. 32. gr. kosningalaganna. Í 43. gr. kosningalaganna eru nefnilega ákveðin ákvæði sem mönnum sést oft yfir og hafa gleymt. Í 2. mgr. 43. gr. laga um kosningar segir, með leyfi forseta:

„Nú hafa stjórnmálasamtök fleiri lista en einn í sama kjördæmi og skal þá merkja þá A, AA …, B, BB … o.s.frv. eftir því sem við á.“

Þannig að heimild er til þess fyrir flokksmenn að bera fram fleiri en einn lista. Þannig gætu t.d. framsóknarmenn borið fram tvo lista í Reykjavíkurkjördæmi norður. Sjálfstæðismenn gætu þess vegna borið fram þrjá lista, D, DD og DDD, í einhverju öðru kjördæmi o.s.frv.

Vandamálið í sambandi við þetta kemur fram í 32. gr., lokamálsgreininni þar, með leyfi forseta:

„Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega samkvæmt reglum stjórnmálasamtaka ber fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir þau samtök skal úrskurða að slíkur framboðslisti teljist ekki vera í framboði fyrir þau.“

Segja má að þarna hafi verið sett inn óeðlilegt ákvæði og eðlilegra hefði verið að gera kröfu til þess að þeir sem vildu bera fram lista í nafni flokks væru þá löglega skráðir flokksmenn í flokkinn.

Á sínum tíma þegar umræður voru um kosningalög, og um þetta ákvæði sérstaklega, þ.e. 24. apríl 1959, sagði þáverandi formaður stjórnarskrárnefndar, Bjarni Benediktsson, í framsöguræðu sinni fyrir meirihlutaáliti þeirrar nefndar sem um þetta fjallaði, með leyfi forseta:

„Ef margir eru í kjöri, fimm eða sex, og kosið hlutfallskosningu þá er ljóst í fyrsta lagi að kjósandinn getur valið um fleiri menn á hverjum lista og er ekki bundinn við þá röðun sem er á listanum þegar hann er lagður fram af flokkssamtökunum. En eins verður þá að muna að minni áhætta er fyrir óánægða flokksmenn að bera fram sérstakan lista ef hlutfallskosningar eru vegna þess að þá er líklegt að meiri líkur séu til þess að minni hlutinn geti komið að sínum manni og þó klofningur verði í flokki þurfi það ekki að leiða til þess að sætið glatist alveg heldur geti af tveimur mismunandi flokkslistum jafnvel tveir mismunandi menn verið valdir.“

Hann heldur síðan áfram, með leyfi forseta:

„Þetta aukna frjálsræði kjósenda sést berlega af tali manna um það að þessari skipun sé sérstaklega fylgjandi hætta á smáflokkum. Sú hætta er í raun og veru ekki annað en það að kjósendur megi sjálfir velja þann sem þeim líkar. Sumir kalla það hættu. Aðrir kalla það aukið frjálsræði.“

Kosningalögin búa til og geyma heimildir fyrir mjög miklu frjálsræði hvað þetta varðar. Þess vegna á sú breytingartillaga sem hér er verið að tala um á kosningalögunum ekki erindi og skiptir í sjálfu sér ekki öðru máli en því að valda ákveðnum ruglingi. Ekki er tekið á því sem mestu máli skiptir, að þurrka út ójöfnuðinn milli landsmanna, þannig að einn maður hafi eitt atkvæði. Í öðru lagi skiptir það engu máli, flokksræðið verður eftir sem áður ríkjandi.