136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Afsakið biðina en ég tók á stökk utan úr húsi þegar ég frétti að komið væri að mér eða þeir ekki komnir sem á undan mér voru á mælendaskránni. Ég ætla ekki að tala lengi eða a.m.k. ekki svona í byrjun. En ég vil segja að kosningalöggjöf, kosningakerfi eru með þeim hætti að vinnu við þau er í raun og veru aldrei lokið eins og stundum er sagt um hagstjórnina, um efnahagsmálin þegar þeim er líkt við heimilisstörfin, við uppþvott og matargerð. Kosningakerfi í lýðræðisríki, þó að það gangi í sjálfu sér vel, þarf að laga að breyttum aðstæðum, að því samfélagi sem sífellt er á hreyfingu og að vilja almennings, vilja fólksins í landinu, þess lýðs sem ræður hverju sinni eða á hvaða tíma. Þetta merkir ekki að heppilegt sé að breyta kosningakerfi eða löggjöf þegar mönnum dettur í hug, þegar vindar blása í einhverjar áttir en það er eðlilegt að á ákveðnum fresti sé farið yfir þetta, kjörnir fulltrúar geri það eftir umræðu eða samfara umræðu meðal almennings.

Aðstæður okkar nú eru óvenjulegar og sá endurómur sem í eyru mín hefur borið af umræðu um þetta mál, einkum sjálfstæðismanna, hefur vakið mér furðu því mér virðast þeir ekki hafa áttað sig á því hversu margt hefur breyst undanfarnar vikur og mánuði, hversu djúp áhrif bankahrunið, gjaldeyriskreppan og sá lífskjaraskjálfti sem varð í september og október og enn stendur yfir, hversu djúp áhrif hann hefur haft á alla hugsun manna hér á landi. Hann hefur m.a. hrundið því fram og gerði mjög fljótt að það verði að breyta kosningalöggjöfinni og kosningareglunum og þótt auðvitað séu margir menn í umræðu eða á fundum ekki á einu máli um það er alveg augljóst í hvaða átt það hefur stefnt. Það hefur stefnt í þá átt að minnka vægi flokkanna, flokksvélanna, hinna einstöku forustumanna flokkanna á löggjafarstörf og framkvæmdarvald í landinu og auka vægi kjósenda sjálfra, auka vægi almennings, gera lýðræðið beinna, gefa fólki rétt á því að velja meira en það getur með núverandi löggjöf hér á landi. Það hafa, í ákaflega stuttu máli, verið miklar vísbendingar, athugasemdir og kröfur uppi um að auka vald hvers einstaks kjósanda þannig að hann sé ekki bundinn við að kjósa fyrst og fremst bókstaf, kjósa lista, heldur geti hann líka valið einstaklinga. Í stuttu máli gengur það frumvarp sem hér er til umræðu út á það að færa kosningalöggjöf okkar í þá átt án þess þó að kollvarpa stjórnarskránni eða gera breytingar á stjórnarskránni sem ekki er tækifæri til hér eða kollvarpa þeirri almennu skipan sem við höfum haft nokkuð langan tíma.

Menn hafa haft það á móti þessu frumvarpi og fært það fram í umræðunni að ekki sé gott að gera miklar breytingar og það er auðvitað von að menn komi úr Sjálfstæðisflokknum og segi það. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn til á sínum tíma — var það ekki árið 1929, segi ég og horfi á Ellert Schram hv. þm. og félaga minn úr Samfylkingunni, sem ætti að þekkja það frá sínum ungu árum? Og hann kinkar kolli. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn þannig til árið 1929 að tveir flokkar sameinuðust, annar nánast smáflokkur sem hét Frjálslyndi flokkurinn og hinn stór flokkur sem hét Íhaldsflokkurinn. Það er ekki nema von að íhaldsmenn komi hér og neiti öllum breytingum og telji þær til skaða og óþurftar því að það er hlutverk íhaldsmanna. Það er út af fyrir sig ágætt hlutverk í hinni stöðugu og eilífu deilu í samfélaginu á milli íhaldsmanna og nýjungamanna, milli þess sem á frönsku er kallað „les modernes“ og „les anciens“ og kenndir eru við stjórnmáladeilur í franskri fortíð.

Á hinn bóginn verður að segja það við íhaldsmenn að í íslenskri kosningalöggjöf höfum við þrátt fyrir allt farið nokkuð mikið yfir, farið nokkuð um víðan völl. Alþingi hófst með einmenningskjördæmum og í þeim einmenningskjördæmum var hreint persónukjör. Menn voru ekki merktir flokkum og skipuðust í flokka á þinginu eftir skoðunum sínum og viðhorfum og afstöðu til einstakra mála og það er eins og flestir vita ekki fyrr en í lok 19. aldar sem til verður einhvers konar flokkakerfi eftir afstöðunni til sjálfstæðismálsins og síðan myndast flokkakerfi sem í mjög stórum dráttum ríkir enn. Það myndast á tímum iðnvæðingar á Íslandi, verkalýðsbaráttu og stéttastríðs, og árið 1916 er oft nefnt í tengslum við það. Það flokkakerfi sem þá myndaðist og sem má í stórum dráttum telja hið sama, stéttaflokkakerfið, þó að sá tími sé liðinn, hefur líka búið við ýmsa skipan í kosningalöggjöf og væri auðvitað vert að fara yfir það en það er ekki tilgangur minn hér heldur að sýna að við höfum sennilega verið nokkuð breytingagjörn miðað við sögu ýmissa annarra þjóða í þessum efnum.

Þá vil ég líka taka fram að það er rétt hjá íhaldsmönnum að það borgar sig ekki að vera með miklar stökkbreytingar í þessum málum. Ég held að það frumvarp sem hér er rætt uppfylli þetta tvennt, sérstaklega með því að gefa þeim framboðum sem það vilja færi á því að haga sér eins og þau hafa gert með því að flokkar bjóði fram lista sem er raðað á þann hátt sem við þekkjum og kjósandi hafi þá möguleika gagnvart þeim lista sem hann hefur haft undanfarið, þ.e. að strika yfir mann eða breyta röð manna með því vægi sem það hefur þannig að þeir sem ekkert vilja gera þurfa ekki að gera neitt. Flokkarnir eða framboðin geta sett fram lista eins og þeir hafa verið og kjósendur sem þá vilja kjósa ganga að þeim lista og gera það við hann sem þeim sýnist.

Önnur framboð sem vilja stíga þetta skref til aukinna áhrifa kjósenda og til meira persónukjörs í kosningunum sjálfum — því að innan sviga verður að segja það hér að vöntuninni á persónukjöri í kosningunum sjálfum hefur verið mætt eða úr henni hefur verið bætt með sínum hætti í prófkjörum sem við höfum af ýmsa reynslu og þau framboð sem vilja þetta geta þá gert þetta, þ.e. boðið fram óraðaða lista eða, sem er auðvitað einn kosturinn í viðbót, boðið fram lista sem í sjálfu sér er óraðaður nema með þeim hætti að í þeim felst leiðbeining fyrir kjósendur um stefnu framboðsins í þessum efnum.

Ég held, forseti, að á tímum eins og þessum eigi maður — og þá er ég kannski ekki að tala um pólitík heldur um kraftana inni í manni sjálfum — ekki að láta eftir íhaldsmanninum í sér, sem alltaf er til og er hollur og góður og varar við og gætir að því að ekki sé rasað um ráð fram, heldur eigi maður að þora, maður eigi að beita hugrekki sínu og virkja nýjungagirnina og stíga skrefið fram á við þó að maður viti ekki alveg, það sé ekki alveg hægt að reikna út með stærðfræðilegri nákvæmni hvert það leiðir.

Ég hef þannig nokkuð snúist í afstöðu minni til persónukjörsins því að ég viðurkenni að í fyrstu var ég tregur að ganga svona langt og sjálfsagt að ég upplýsi hvers vegna það var. Það var ekki vegna þess út af fyrir sig að ég vantreysti kjósendunum heldur einkum vegna þess að mér ógnaði það hvernig framboð gæti orðið sem færi á óraðaðan lista, hvernig það mundi geta orðið að prófkjör bættust við í kosningunum sjálfum þannig að þetta færi fram á sama tíma. Ég held að úr þeim galla verði leyst. Ég held að flokkarnir og kjósendur þeirra, fjölmiðlarnir og aðrir þeir sem koma við sögu í stjórnmálabaráttu leysi úr þessum málum eins og alltaf gerist. Ég held t.d. að svarið við þessum ótta mínum um að prófkjörin færist inn í flokkaframboðin sjálf sé ósköp einfaldlega þannig að ef framboð er svo veikt og svo óburðugt að boðskapur þess til kjósenda spillist með því að frambjóðendur séu að olnboga sig hver fram fyrir annan sé það framboð ósköp einfaldlega ekki þess virði að það nái miklum áhrifum í kosningunum. Ég held að viðbrögð frambjóðendanna eða framboðsins, flokksins, ef ég má nota það nafn — ég geri þá skilgreiningu að það þurfi ekki endilega að vera stjórnmálaflokkur heldur aðili sem býður fram — að viðbrögð hans yrðu annaðhvort þau að auka agavald yfir frambjóðendum þannig að þeir höguðu sér með verðugum hætti gagnvart kjósendum eða þá að frambjóðendurnir mundu sameinast af tillitssemi við málstaðinn um að þetta sé ósköp einfaldlega val kjósendanna og menn gæti ákveðins jafnræðis sín á milli í framboðunum.

Önnur rök sem auðvitað er vert að skoða varða kjósendur sjálfa. Það er auðvitað góð regla og gullin að reyna að hafa hlutina eins einfalda og hægt er, að nota sum sé ekki þá meintu þýsku reglu að hafa hlutina eins flókna og mögulegt er heldur einmitt á hinn veginn. Við höfum búið við tiltölulega einfalt kosningakerfi að okkur finnst vegna þess að við erum vön því. En það er ákaflega auðvelt að finna kosningakerfi sem okkur finnast flókin, kosningalöggjöf sem við skiljum ekkert í við hraða yfirsýn. Þó er það þannig að Danir og Írar, þannig að maður nefni bara þær þjóðir, Þjóðverjar og aðrar grannþjóðir okkar hafa búið við slíka kosningalöggjöf áratugum saman og enn er lýðræði í þeim löndum og kjósendur kvarta ekki heldur venja sig á að skoða þá kosti sem fyrir hendi eru og taka þátt í þeim kosningum eins og ekkert sé. Og þó að Þjóðverjar, Danir og Írar séu gott fólk eru þeir ekki svo miklu gáfaðri en Íslendingar að við getum ekki að einhverju leyti skoðað fleiri kosti í kosningalöggjöf okkar en nú finnast þó að ég sé ekki að mæla með flækju eins og t.d. er í írska kosningakerfinu, m.a. vegna þess að sú flækja dregur nokkuð úr spennu í kosningunum og þar koma úrslit ekki í ljós fyrir en mörgum dögum seinna.

Ég gæti haldið áfram með ýmsar athugasemdir af þessu tagi. Þegar ég skoða frumvarpið í heild sinni, eins og maður á að gera við 1. umr. um mál í þinginu, finnast mér þær allar frekar léttvægar. Stóru spurningarnar eru þessar: Ætlar þingið að láta undan þeirri kröfu í landinu að áhrif kjósenda verði aukin og dregið úr vægi flokkanna um leið? Ætlar þingið að klára mál sem það sjálft hefur auðvitað rætt heillengi eða ætlar það að láta fallast niður í tregðulögmálið og reyna eins og kostur er að láta eins og hér hafi ekkert gerst í september, október, nóvember, desember og janúar í mesta bankahruni og mestu efnahagslægð Íslandssögunnar?