136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason er bjartsýnismaður eins og kom fram í andsvari hans. Það má vel vera að hann hafi rétt fyrir sér. Ég hef hins vegar ekki trú á öðru og geri ekki ráð fyrir öðru en að þingmenn og aðrir frambjóðendur til Alþingis muni keppa, ekki bara á flokksforsendum heldur líka á eigin forsendum og það getur leitt til þess ástands sem ég vék að í fyrra andsvari mínu.

Varðandi það að nú sé tíminn til breytinga, sem kom fram í svari hv. þm. Marðar Árnasonar, þá velti ég því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að ganga til breytinga af þessu tagi í einhverju skyndi. Ég spyr: Ef raunverulegur áhugi er í samfélaginu á því að auka vægi persónukjörs, gera menn þá ráð fyrir að sá áhugi verði dottinn niður í sumar eða haust? Er það þá mikill áhugi?

Ég held að við eigum að horfa á það að taka tíma í svona breytingar. Við eigum ekki að rjúka til í einhverju óðagoti og ákveða breytingar jafnvel þótt krafa sé um það í þjóðfélaginu. Krafa sem reyndar hefur ekki verið mæld með neinum hætti svo ég viti til, krafa sem hefur ekki komið fram með neinum hætti í kosningum. Hvorki flokkur hv. þm. Marðar Árnasonar né aðrir flokkar sem eiga sæti á þingi börðust fyrir persónukjöri þegar kom til alþingiskosninga síðast. Kjósendur hafa aldrei sagt sína skoðun. Væri ekki heppilegra, hv. þm. Mörður Árnason, að þeir flokkar sem vilja koma á persónukjöri hér á landi með einhverjum hætti útskýri hugmyndir sínar fyrir kjósendum í næstu kosningum og vinni síðan að breytingum af yfirvegun á grundvelli (Forseti hringir.) þeirra kosningaúrslita?