136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Birgir Ármannsson, hv. þingmaður, er svartsýnn íhaldsmaður og ég virði fullkomlega þá lífsafstöðu. Svartsýnn íhaldsmaður var líka afi Péturs í Pétri og úlfinum sem bannaði honum að horfa á heiminn fyrir utan múrinn. Pétur óhlýðnaðist því banni og því er ekki að neita að Pétur lenti í nokkru ævintýri við það, en ef hann hefði ekki farið yfir múrinn, ef hann hefði látið svartsýna íhaldsmanninn, afa sinn, ráða þá ættum við heldur ekki hið ágæta tónverk Pétur og úlfinn.

Nú væri þetta eiginlega nægt svar. En til að hugga hinn svartsýna íhaldsmann, Birgi Ármannsson, og hv. þingmenn félaga hans þá er það þeim til upplýsingar að segja að þeir geta haldið áfram að höfða til svartsýnna íhaldsmanna í hópi íslenskra kjósenda með því að bjóða fram lista á nákvæmlega sama hátt og þeir hafa gert hingað til. En við bjartsýnir framfarasinnar höfðum til okkar kjósenda og bjóðum þeim að taka þátt í nýjum tímum og persónukjöri með okkur.