136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:17]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að karpa við hv. ágætan þingmann Birgi Ármannsson fram eftir kvöldi. Ég vil vísa því á bug að flokksræði sé meira í Samfylkingunni eða yfirleitt þar. Enda þótt einhverjir tveir eða þrír forustumenn flokksins hafi tilkynnt að þeir gefi kost á sér í fyrsta, annað eða þriðja sæti liggur það í orðunum að þeir ganga ekki út frá því sem vísu að þau sæti falli þeim í skaut heldur er um að ræða tilkynningu um það, eins og gerist líka í Sjálfstæðisflokknum, að menn bjóða sig fram í tiltekin sæti og svo reynir á hvort þeir ná þeim eða ekki.

Ég get ítrekað það sem ég reyndar hélt að hefði komið fram í máli mínu áðan að vissulega hefði þetta mál um breytingar á kosningalögum þurft lengri aðdraganda og meiri tíma og þurft að þroskast í höndum okkar. Ég get alveg tekið undir að þetta ber brátt að.

En það er svo margt óvanalegt í þjóðfélaginu um þessar mundir og svo margt þarf að gera og ég held að nauðsynlegt sé að bregðast sem allra fyrst við mjög mörgu sem upp á borðið hefur komið vegna þess að tafir í þessum efnum í fjögur ár leiða kannski til þess að ekkert verður gert þegar frá líður.

Nú tökumst við á við það sem við höfum meira og minna öll viðurkennt að flokksræðið hefur verið ráðandi hér. Við erum að reyna að draga úr því og þetta er mjög áhrifarík aðferð til þess að ná upp sjálfstæði alþingismanna og Alþingis á kostnað þess flokksræðis sem því miður hefur m.a. leitt af sér þetta mikla hrun sem við stöndum frammi fyrir.