136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Í upphafi vil ég víkja að aðdraganda málsins. Aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gert það fyrr í umræðunni, en mér finnst samt sem áður þörf á að víkja að því að þetta mál er unnið og borið fram af minnihlutastjórn í landinu, reyndar með aðkomu Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins. En það er unnið alfarið af hálfu ríkisstjórnarinnar, öðrum flokkum var boðið að vera með en þeir höfðu ekki áhrif á þá vinnu sem lá að baki frumvarpinu.

Þetta er harla óvenjulegt vegna þess að hingað til, alla vega undanfarna áratugi, hafa breytingar á kosningalögum verið unnar í sátt eða að minnsta kosti með tilraunum til að ná víðtækri sátt um slíkar breytingar. Þetta er mikilvægt vegna þess í stjórnmálum skiptir máli að leikreglur séu skýrar og stjórnmálamennirnir geti einbeitt sér að því að deila um málefnin en þurfi ekki stöðugt að deila um leikreglurnar. Því legg ég áherslu á að farið verði í breytingar af þessu tagi af varfærni. Það finnst mér ekki gert í aðdraganda þessa máls og undirbúningi.

Rétt er að minna á það að ríkisstjórnin sem nú situr tók við völdum um mánaðamótin janúar/febrúar og ákvað þegar að boða til kosninga 25. apríl. Það segir sig sjálft að á þeim tíma sem líður á milli 1. febrúar og 25. apríl þarf ríkisstjórn að forgangsraða. Nú hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt um það bil 30 þingmál, frumvörp og þingsályktunartillögur, sem hún hefur í hyggju að senda eða hefur þegar sent hingað í þingið. Af þessum málum snúa níu að hagsmunum fyrirtækja og heimila, níu af 30, 21 mál snýr að einhverju öðru.

Nú hefði ég haldið að ríkisstjórnin legði allt kapp á að fá þessi níu mál afgreidd á þeim skamma tíma sem er til stefnu í þinginu. Tími sem er skammur, einmitt vegna þess að þessi sama ríkisstjórn ákvað að efna til kosninga jafnskjótt og raun ber vitni. Það skiptir máli að hafa þetta í huga.

En í stað þess að leggja þessa forgangsröðun til grundvallar þegar mál koma hér inn í þingið, eins og ríkisstjórnin gerir þegar hún lýsir níu af málum sínum sem málum í þágu heimila og fyrirtækja, dembir hún ýmsum öðrum málum hér inn fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið sem hún leggur mikið kapp á að koma í gegn. Auðvitað hlýtur það að hafa áhrif á framgang annarra mála. Auðvitað er rétt hjá hv. þm. Ellerti B. Schram sem talaði hér áðan að þingmenn geta tekið á honum stóra sínum og unnið vel á skömmum tíma.

Mér finnst það hins vegar ekki bera vott um rétta eða skynsamlega forgangsröðun eða skynsamleg vinnubrögð að ætla á örskömmum tíma að fara í gegn með, ekki bara þau mál sem eru brýn vegna þess bráða vanda sem við er að stríða í efnahagsmálum, heldur ýmis önnur áhugamál hv. þingmanna og ráðherra ríkisstjórnarflokkanna, eins og það mál sem hér liggur fyrir.

Það segir sig sjálft að ekki er hægt að gera allt. Tíminn er knappur. Tíminn er stuttur. Það er ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna sjálfra að boða til kosninga með svo skömmum fyrirvara og auðvitað verða þeir að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki komið öllu því í verk sem þeir helst vildu.

Þetta finnst mér rétt að taka fram og að ítreka það sem áður hefur komið fram um að ekki hefur verið um að ræða pólitískt samráð um þessar breytingar. Flokkunum hefur verið stillt upp við vegg, tillögurnar hafa verið tilbúnar af hálfu ríkisstjórnarinnar og lagðar á borðið fyrir menn og spurt: Eruð þið með eða eruð þið á móti? Ekki hefur verið um eðlilegt samráð að ræða, þar sem allir hafa komið að borðinu og getað komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Að þessu sögðu vil ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari að hugmyndir um persónukjör og ýmsar breytingar á kosningalögunum eru góðra gjalda verðar. Ég er alls ekki andvígur því að taka slíkar hugmyndir til umræðu. Ég tel að þær geti verið skynsamlegar. Ég hef sjálfur oft velt fyrir mér ýmsum möguleikum í því sambandi, bæði kerfi á borð við það sem við sjáum í nágrannalöndunum, mismunandi kerfi á milli landa, Danmerkur, Svíþjóðar, Þýskalands, Írlands og fleiri landa. Þetta eru mismunandi leiðir og ég hef oft velt fyrir mér hvort betra væri að koma svipuðu kerfi á hér.

Ég játa það líka að ég hef stundum velt fyrir mér kostum þess að hafa hér einmenningskjördæmi. Það eru kostir og gallar við slíkt fyrirkomulag. En mér finnst að í raun og veru sé það líka spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur í því sambandi.

Það sem er að gerast í þessu máli er ekki að mismunandi valkostir hafi verið lagðir á borðið, vegnir og metnir og kostir og gallar skoðaðir — því ekkert kerfi er fullkomið. Það hefur ekki verið gert. Ekki hefur verið horft á mismunandi möguleika og reynt að velja þann besta eða þann sem mest sátt gæti náðst um. Einn kostur er tekinn og honum skellt á borðið og því lýst yfir að fara eigi með hann í gegnum þingið á örskömmum tíma, burt séð frá því hvort um það næst samstaða eða ekki. Það er ekki gott.

Ég held að miklu betra vinnulag væri að ríkisstjórnin og við sem sitjum hér á þingi einbeittum okkur að því næstu vikur að klára og gera vel úr garði þau mál sem hafa raunverulega þýðingu til að bregðast við þeim efnahagsvanda sem við eigum við að stríða. Ég held að við ættum að kynna þau mál fyrir kjósendum og velta því kannski fyrst fyrir í okkar röðum hvað við viljum gera í sambandi við breytingar á kosningalögum og stjórnskipun. Ræða það á landsfundum sem eru fram undan í flestum flokkum. Ég held að við ættum að fara í slíka stefnumótun, leggja síðan stefnu okkar í þeim málum á borðið fyrir kjósendur og gefa þeim kost á að segja skoðun sína. Því þegar talað er um kröfu í samfélaginu byggir það á einhverri mjög ómarkvissri tilfinningu sem ekki hefur verið hægt að færa sönnur á með neinum hætti.

Talandi um þessa tilfinningu í samfélaginu er vissulega rétt að í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í landinu á síðustu mánuðum hafa margir nefnt aukið vægi persónukjörs sem breytingu sem menn vilja skoða. Gott og vel. En liggur fyrir að leiðin sem ríkisstjórnin býður hér upp á sé sú sem fólk vill fara? Ég hef heyrt í fjölmörgum hörðum áhugamönnum um persónukjör sem vilja fara allt aðrar leiðir, t.d. þá að hægt sé að velja fólk af mismunandi framboðslistum. Þar er gengið töluvert lengra en í þessu frumvarpi. Ef ætlun ríkisstjórnarinnar er að bregðast við einhverri kröfu í samfélaginu held ég að margir úti í samfélaginu sem hafi gert kröfu um persónukjör verði fyrir vonbrigðum þegar þeir kynna sér hvað í frumvarpinu felst.

En nóg um það. Ég tel að mikilvægt sé og rétta leiðin til að nálgast þetta mál að flokkarnir móti stefnu sína í þessu máli. Flokkarnir og önnur framboð sem eru að koma fram móti stefnu sína í þessum málum, leggi hana fyrir kjósendur og sjái hvaða fylgi þau sjónarmið fá í kosningum. Það er eina raunverulega mælingin sem við höfum á vilja kjósenda.

Það hefur raunar verið þannig að undanförnu í samfélaginu að alveg ótrúlega margir og mismunandi hópar og einstaklingar hafa talið sig geta talað fyrir hönd þjóðarinnar í mismunandi málum. Menn sem efna til funda úti og inni og skrifa á internetið með ýmsum hætti telja sig tala í nafni þjóðarinnar fram og til baka. Það er dálítið erfitt að átta sig á hver þjóðarviljinn er ef þau mismunandi sjónarmið sem koma fram hjá þeim eru skoðuð.

En hvernig mælum við þjóðarviljann? Hann hlýtur að vera mældur í kosningum, sem eru hinn eini raunverulegi mælikvarði sem skiptir máli í þessu sambandi.

Í ljósi þess hve skammt er til kosninga er eðlilega nálgunin sú að flokkarnir móti stefnu í þessum málum, leggi hana á borðið fyrir kjósendur og ef kjósendur leggja mikið upp úr því að ná fram breytingum af þessu tagi hljóta þeir að láta það hafa áhrif á sig þegar þeir ganga að kjörborðinu. Vilji kjósenda ætti því að endurspeglast í niðurstöðum kosninganna. Þannig held ég að betra væri að nálgast málið og raunar líka þær stjórnarskrárbreytingar sem við munum ræða í þinginu á morgun. Í stað þess að rjúka til á örfáum vikum og klára einhver mál í bullandi ósætti væri rétt að flokkarnir bæru stefnu sína í þessum málum undir kjósendur og ynnu síðan áfram að framgangi þeirra á grundvelli kosningaúrslitanna. Ég held að það væri mun vitrænni leið.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur persónukjör sem slíkt bæði kosti og galla. Kosturinn er sá að með auknu vægi persónukjörs styrkist staða stjórnmálamannanna sem slíkra, en um leið eykst í raun ábyrgð þeirra. Þeir þurfa að standa frammi fyrir kjósendum sjálfir og geta ekki falið sig með sama hætti á bak við flokka sína eins og kannski hefur oft gerst. Meiri líkur eru á því að beint og milliliðalaust samband náist á milli kjósenda og þingmanna en ella.

Þetta eru kostirnir. Gallarnir eru hins vegar, eins og hefur komið fram í umræðunni, m.a. fólgnir í því að aukið vægi persónukjörs getur flækt kosningalöggjöfina og kosningaathöfnina sjálfa og almennt er viðurkennt í þeim fræðum að til bóta sé að hafa kosningar og kosningafyrirkomulag einfalt og auðskiljanlegt til að allir kjósendur geti gengið að því, ekki bara þeir sem fylgjast vel með eða eru með einhverjum hætti virkir þátttakendur eða áhorfendur að stjórnmálabaráttunni frá degi til dags.

Annar galli er auðvitað sá sem við ræddum hér áðan, ég og hv. þm. Mörður Árnason, að raunveruleg hætta er á því að sú barátta sem fer nú fram í prófkjörum og hefur vissulega marga galla færist fram á kjördag, standi allan tímann fram á kjördag og einstakir frambjóðendur verði önnum kafnir og uppteknir af því að koma sjálfum sér á framfæri alveg fram undir það síðasta. Það gerir kosningabaráttuna miklu flóknari og erfiðari en þegar flokkarnir hafa útkljáð framboðsmál innan sinna raða áður en kosningabaráttan sjálf hefst. Menn geta þá skipt verkum, stillt upp og samræmt stefnu sína áður en baráttan hefst þannig að kjósendur hafi við slíkar aðstæður skýrari valkosti hvað stefnumál varðar þótt þeir hafi minni valkosti hvað einstaklinga varðar.

Þetta eru allt saman þættir sem þarf að hafa í huga. Ég held að grundvallaratriðið í málinu sé einfaldlega þetta. Við eigum ekki að breyta kosningalögum örfáum vikum fyrir kjördag. Við eigum ekki að breyta leikreglunum þegar leikurinn er hafinn. Við eigum að undirbúa slíkar breytingar vel, velta fyrir okkur mismunandi kostum, vega og meta kosti og galla ólíkra leiða.

Ég vil hins vegar ljúka máli mínu með því að segja að ég hef raunverulegan áhuga á því að skoða þessi mál. Ég tel að mjög margir hv. þingmenn hafi áhuga á því líka. Það heyri ég í mínum flokki og í öðrum flokkum. Menn vilja vinna sig áfram í þessum málum, skoða mismunandi kosti og ræða þá og gera breytingar sem menn ná samkomulagi um. En sú aðferðafræði og sú aðferð sem ríkisstjórnin býður upp á í þessu máli er að mínu mati algerlega ótæk.