136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að beina orðum til þingmanna Samfylkingarinnar. Ég sé að hv. þingmaður, formaður samgöngunefndar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, er ekki í salnum en hér eru ýmsir af talsmönnum Samfylkingarinnar í salnum þannig að ég beini orðum mínum til þeirra.

Á síðasta kjörtímabili var mikið rætt um gjaldtöku í Hvalfjarðargöngin. Sem samgönguráðherra beitti ég mér fyrir því að Spölur sem rekur jarðgöngin endurskoðaði gjaldskrána. Ríkisendurskoðun lagði mat á getu félagsins til lækkunar á gjaldinu ef samið yrði um lengingu lána og lækkun vaxta. Hagstæðir samningar náðust og gjaldið var lækkað verulega. Eins og þekkt er samþykkti Alþingi sérstaka löggjöf um samgönguáætlun og var samþykkt 12 ára samgönguáætlun árið 2003 sem enn er í gildi. Hún var endurskoðuð fyrir árin 2007 og 2010. Unnið var eftir þessum áætlunum síðasta kjörtímabil og það sem af er þessu kjörtímabili. Þessi áætlun er mjög metnaðarfull og eru m.a. nýttir fjármunir vegna sölu Símans til framkvæmda. Ekkert hefur enn bólað á endurskoðun samgönguáætlunar svo sem lög gera ráð fyrir.

Fyrir síðustu kosningar var nokkuð rætt um gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum og beitti Samfylkingin sér fyrir mikilli áróðursherferð gegn þáverandi samgönguráðherra. Var öllu tjaldað til sem hægt var og sett upp áberandi skilti við Hvalfjarðargöngin með áletruninni: „Burt með sturlaðar samgöngur“. Fylgdi síðan loforð um að ef menn kysu Samfylkinguna mætti treysta því að gjaldið yrði fellt niður, ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson yrðu kjörnir.

Samfylkingin hefur nú í nærri tvö ár farið með samgönguráðuneytið og haft formann samgöngunefndar og þess vegna hljótum við að spyrja: Hvenær kemur endurskoðuð samgönguáætlun sem gerir ráð fyrir því að gjaldið (Forseti hringir.) í Hvalfjarðargöngin verði fellt niður?