136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fyrsti sjálfstæðismaðurinn í þinginu talar gegn Hvalfjarðargangagjaldinu, hv. þm. Jón Magnússon. (Gripið fram í: Guðjón Guðmundsson.) Það er rétt, Guðjón Guðmundsson gerði það á sínum tíma, en úr þeim hópi sem núna er, er þetta fyrsti þingmaðurinn sem talar gegn áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum.

Það er alveg hárrétt sem komið hefur fram, að Spölur var stofnaður með lögum á sínum tíma og í samstarfi sveitarfélaga og fleiri aðila. Þá var ég sjálfur í sveitarstjórn og studdi það af heilum hug. Ég tel að þessi framkvæmd hafi verið sérlega vel lukkuð og vel til fundin á sínum tíma og fullkomlega réttlætanleg. Aldrei var talað gegn því að gjaldið var lagt á í upphafi. En þegar fimm ár voru liðin var hv. þm. Guðjón Guðmundsson kominn með tillögu um að afnema það vegna þess að menn sáu að það olli ákveðnu misvægi á milli svæða. Síðan var tillagan endurflutt þegar tíu árin voru liðin. Þá fluttum við þessa tillögu, norðvesturþingmenn Samfylkingarinnar, svo að það sé á hreinu, við börðumst fyrir því þá og gerum það enn. Það er auðvelt að koma með fullt af tillögum og alla vega ályktunum frá einstökum mönnum sem engu skila. Ég barðist fyrir þessu sjálfur innan míns hóps og er enn að því og tel að það sé eðlilegt að afnema gjaldtöku. (Gripið fram í.) Það er rétt, það hefur ekki gengið neitt. Við höfum opnað á þann möguleika að tekin verði upp gjaldtaka á öllum öðrum vegum og samhliða stórum framkvæmdum geti verið rökrétt að hún haldi áfram. Annað hefur ekki komið fram í sambandi við þá umræðu.

Það er alveg hárrétt sem þm. Sturla Böðvarsson segir að það þurfi að endurskoða samgönguáætlun. Það er merkilegt aftur að hann skuli nefna það sérstaklega af því að hann hefur hælt þeirri áætlun mjög mikið, en það er rétt að það þarf að endurskoða hana. Það hefur ekki unnist tími til þess af ýmsum ástæðum sem flestum ætti að vera ljósar og það þarf að taka það strax upp í framhaldi af kosningum. Þá ætla ég að vona að gjaldtaka á vegum verði eitt af stóru málunum sem verða leyst með nýrri samgönguáætlun, með réttlæti og jafnrétti í huga þar sem allir (Forseti hringir.) sitja við sama borð.