136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að ræða um tónlistarhúsið og beini spurningu til hv. þm. Gunnars Svavarssonar. Eins og kunnugt er var tónlistarhúsið gæluverkefni margra og dæmi um flottræfilshátt sem ríkti hér á landi fyrir hrun. Ég var alltaf á móti þessu gæluverkefni, eins og kunnugt er. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekki megi greiða fé úr ríkissjóði nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Þessari framkvæmd var laumað í gegnum 6. gr. fjárlaga og hefur aldrei komið í fjárlög. Eins og með margar aðrar einkaframkvæmdir sem í auknum mæli eru teknar upp hjá sveitarfélögum og ríki var verið að plata skattgreiðendur framtíðarinnar, sem stjórnarskránni er ætlað að vernda og láta þetta líta út eins og guð almáttugur hafi hent þessum framkvæmdum ofan af himnum, hvort sem það eru íþróttahallir eða tónlistarhúsið.

Nú stöndum við frammi fyrir því að stöðva framkvæmdirnar, sem kosta mikið, eða halda þeim áfram, sem kostar milljarða í verðmætum gjaldeyri , á sama tíma og við skerum niður í öllu kerfinu. Hæstv. menntamálaráðherra Vinstri grænna hefur samþykkt að fara út í þessa milljarðaframkvæmd sem kostar gjaldeyri. Á sama tíma er hæstv. heilbrigðisráðherra, líka Vinstri grænna, að berjast við að skera niður í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma stendur hæstv. fjármálaráðherra, líka Vinstri grænna, frammi fyrir því að skera heilmikið niður í fjárlögum.

Ég spyr hv. þm. Gunnar Svavarsson, formann fjárlaganefndar, hvernig staða málsins sé í fjárlaganefnd og hvernig það líti út frá hans sjónarhorni.