136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Sú umræða sem hér fer fram, m.a. um samgöngumál, er af hinu góða. Ég tel að stjórnmálamenn þurfi að tala af ábyrgð í því efnahagsástandi sem nú ríkir og þegar við tölum um gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng skulum við gera okkur grein fyrir því að sú aðgerð kostar mikla fjármuni og við þurfum að gera það upp við okkur hvort við ætlum að fara í slíkar aðgerðir eða stuðla að frekari vegaframkvæmdum í landinu, meiri framkvæmdum til handa atvinnulífi.

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í umræðunni. Fyrst kemur hv. þm. Sturla Böðvarsson upp og talar fyrir því að menn gangi í þá átt að þau verði gjaldfrjáls, síðan kemur hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson og er á móti því. Sjálfstæðisflokkurinn talar tungum tveimur í þeirri umræðu sem og um tónlistarhúsið, þar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsir yfir miklum efasemdum um þá framkvæmd á meðan félagar hans í borgarstjórn Reykjavíkur hafa stuðlað að því að halda áfram þeirri uppbyggingu. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að tala einni rödd í þessu máli.

Mig langar að taka undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, ég tel að Samfylkingin hafi skotið ærlega yfir markið í kosningaloforðum sínum í aðdraganda síðustu kosninga þar sem flokkurinn lofaði gjaldfrjálsum Vaðlaheiðargöngum strax, en ekkert hefur orðið af því. Hann lofaði gjaldfrjálsum Hvalfjarðargöngum, en ekkert hefur orðið af því. Sá flokkur þarf líka að sýna þá ábyrgð í kosningabaráttunni fram undan að vera spar á loforðin, það er betra að geta staðið við það sem menn segja.

Ég ætla að minna á — og vona að sá leikur verði ekki endurtekinn — þegar frambjóðendur Samfylkingarinnar fóru inn í Menntaskólann á Akureyri og aðra framhaldsskóla með ávísanir handa ungu fólki þar sem fríum skólabókum var lofað. Ekkert hefur orðið af því og það er ljótur leikur að lofa slíku og (Forseti hringir.) standa ekki við það.