136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús -- forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

[11:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mig langar til að ræða um störf þingsins, störf þessarar ríkisstjórnar, forgangsmál og forgangsröðun hennar. Eins og fram hefur komið og kemur fram í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og forsvarsmenn hennar hafa margoft kynnt á blaðamannafundum, vill þessi ríkisstjórn setja aðgerðir í þágu heimilanna í forgang, leggja áherslu á að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik og vinna að endurreisn bankakerfisins.

Alla þessu viku hefur ríkisstjórnin hins vegar eytt púðri sínu í að reyna að ná fram breytingum á kosningalögum til Alþingis og í dag á að ræða stjórnarskrárbreytingar. Það veit ég eins og öll þjóðin að þessi mál hafa ekkert með þau meginverkefni að gera sem ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún vilji vinna að. Breytingar á stjórnarskránni og breytingar á kosningalögunum munu ekki lækka greiðslubyrði heimilanna. Breytingar á stjórnarskránni munu ekki koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Og breytingar á kosningalögunum hafa ekkert með endurreisn bankanna að gera eða baráttuna gegn atvinnuleysi.

Ég hlýt því að spyrja forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna á þingi, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson: Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að taka sig saman í andlitinu og fara að vinna að þeim verkefnum sem aðkallandi eru og fólkið í landinu bíður eftir að verði leyst? Hvað ætlar hv. þingmaður að gera til að beita sér fyrir því að þessi ríkisstjórn fari að fjalla um skuldir (Forseti hringir.) heimilanna, um atvinnulífið í landinu og endurreisn bankanna (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að ræða um kosningareglur og breytingar á stjórnarskránni?