136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:47]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svaraði þessu kannski áðan, að ég liti á þetta sem fyrsta áfanga í ákveðnu ferli og ef þetta gengi vel ætti þingið og hv. þingmenn að skoða það, hugsanlega eftir einhverja mánuði, að víkka málið enn frekar út. Þess vegna vakti ég strax athygli á þessu ákvæði varðandi verkstæðin og verksmiðjuvinnuna að „vaska“ það sem þar væri til baka inn í kerfið af manntímavinnu þar og taldi að sú hringrás í efniskaupum og annað mundi verða það mikil í kjölfarið að við ættum að horfa til þess.

Þess vegna vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég er ekki með neinar tillögur í þessa veru. Ég hef stoppað varðandi breytingartillögur um þetta mál. Ég ætla hins vegar að hvetja þingheim og hv. þingmenn til að hugsa um þetta mál í aðdraganda kosninga. Nú er ljóst að ég sækist ekki eftir endurkjöri og mun ekki flytja breytingartillögu um þetta á nýju þingi, það liggur alveg ljóst fyrir, en ég hvet menn til að hugsa um þetta mál og hugsa einmitt svolítið óhefðbundið næstu mánuði. Þó að allir haldi sig við grunnprinsipp stjórnmálaflokkanna hver um sig geta menn þurft að ná samstöðu um svona mál. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að manni þykir í sjálfu sér vænt um að hafa náð svo mikilli samstöðu um þetta mál eins og var í efnahags- og skattanefnd og sjá hve þessir tugir umsagnaraðila voru allir jákvæðir gagnvart þessu máli. Kannski er það bara svo að menn eru jákvæðir gagnvart því að fá endurgreiddan virðisaukaskatt en ég held að það sé ekki það. Ég held að menn sjái að þetta mál getur orðið til þess að koma atvinnulífinu af stað, koma peningum í umferð og hreyfa svolítið við málum og ég hvet menn til að hugsa um slíka hluti í komandi kosningabaráttu.