136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:55]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns áðan fylgdist ég ekki með þessari umræðu í gær og ég tók ekki þátt í nefndarstörfunum en ég hlustaði á hv. þingmann flytja ræðu áðan og það er andsvar við hana sem ég er að flytja hér. Það kemur á óvart að hv. þingmaður komi hér og flytji ræðu og setji fram hugmyndir sem hann telur vera til bóta á frumvarpinu en svo þegar hvatt er til þess að unnið verði í því að koma þessum hugmyndum inn í frumvarpið kemur hv. þingmaður og dregur svolítið í land. Ég taldi að það væri möguleiki til að gera þetta góða mál enn betra og það væri markmið í sjálfu sér að reyna að vinna að því að gera málið enn betra miðað við þau rök sem hv. þingmaður hafði í sinni ágætu ræðu og ég tek undir og ég tek undir þá breytingartillögu sem hv. þingmaður flytur o.s.frv. Ég taldi að þingmaðurinn væri með sjónarmið sem ættu fullt erindi inn í málið miðað við þau sjónarmið og þau rök sem hann flutti í ræðu sinni. Það er það sem ég er að segja, ég er ekki að gagnrýna málflutning þingmannsins á neinn hátt.