136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp við 3. umr. þessa máls, þegar það hefur svona tekið á sig að því er mér virðist endanlega mynd og lýsa yfir ánægju með málið í heild sinni og hvernig það hefur þróast í þingstörfunum. Mér finnst hafa verið vel haldið á þessu máli af formanni og varaformanni nefndarinnar og ég fagna þeim breytingum sem á því hafa verið gerðar. Ég tel brýnt við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu að koma meira til móts við þá aðila sem málið snertir, þ.e. þá sem standa í framkvæmdum. Við munum með þessari niðurfellingu virðisaukaskattsins eða endurgreiðslu hans, aukinni endurgreiðslu, stuðla að því að störf tapist ekki í byggingariðnaðinum. Þetta er mikilvægt mál fyrir þá sem starfa á því sviði; smiði, múrara, rafvirkja og aðra þá sem standa að byggingu húsnæðis. Ég held að það hafi jafnframt verið skynsamlegt að hafa frístundahúsnæðið með eigin húsnæði inni í breytingartillögu nefndarinnar.

Varðandi þá umræðu sem farið hefur fram um hvort við ættum að fella niður virðisaukaskatt af innanlandsframleiðslu sem nýtist við byggingar á húsnæði, þá tel ég að við í nefndinni höfum ekki haft nægilegt svigrúm til þess að gefa því álitaefni gaum hvort slík breyting mundi varða við samkeppnislögin. Ég óttast að slík breyting hefði gert það vegna þess að hún hefði leitt til þess í grunninn að af glugga sem væri smíðaður á Íslandi, sem væri ætlaður til uppsetningar á verkstað, hvort sem um væri að ræða eigið húsnæði eða sumarhús eða annað sem félli undir lögin, fengist endurgreiddur allur virðisaukaskattur en hins vegar legðist virðisaukaskattur á glugga sem væri framleiddur utan Íslands við innflutning og sá virðisaukaskattur fengist ekki endurgreiddur. Við náðum ekki að teygja málið yfir þetta enda var aldrei ætlunin með frumvarpinu að taka til slíks innflutts varnings. Við erum fyrst og fremst að reyna að örva byggingarmarkaðinn á Íslandi. Það misræmi sem hefði komið fram við þá breytingu sem hér hefur verið til umfjöllunar og m.a. hv. þm. Gunnar Svavarsson kom inn á í máli sínu, ég tel að sú breyting hefði þurft frekari skoðun og mér sýnist á öllu að það hefði ekki gengið fyrir okkur hérna á þinginu að efna til slíkrar mismununar.

Auðvitað eru fjölmargir aðilar sem flytja inn efni til húsbygginga sem nýtist bæði fyrir íbúðarhúsnæði og sumarhúsabyggð og sama á við um opinberar byggingar að svo miklu leyti sem þær falla undir ákvæði frumvarpsins. Við þurfum að hafa hagsmuni þeirra í huga en gleymum því þá ekki að þeir munu óbeint njóta góðs af ákvæðum frumvarpsins vegna þess að ef tilgangi málsins er náð munum við örva framkvæmdir við byggingar og þar af leiðandi óbeint valda því að það verður horft til kaupa með innfluttan varning alveg eins og innlenda framleiðslu í þessu efni.

Ég ætla ekki að setja á langt mál hér. Ég fagna því hvernig haldið hefur verið á málinu í þinginu, ég fagna því að það skuli hafa komið fram. Ég tel að við séum að vinna afar mikilvægt verk með því að ljúka því sem allra fyrst.