136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir góðar efnislegar undirtektir við að brýnt sé að fara í aðgerðir er snerta heimilin og fyrirtækin hið allra fyrsta.

Ég sagði í ræðu minni áðan að við framsóknarmenn munum vonandi eiga utandagskrárumræðu við forsætisráðherra hér á vettvangi þingsins á mánudaginn. Ég held að í þeirri umræðu komi væntanlega í ljós hvort hæstv. ráðherra taki undir einhverjar af þeim tillögum sem við höfum lagt fram.

Að sjálfsögðu munum við fylgja þessum tillögum okkar eftir með þingmálum á vettvangi þingsins. Hv. þingmaður mun sjá það hér. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að Framsóknarflokkurinn ver ríkisstjórnina vantrausti og hann mun gera það. Við hvetjum ríkisstjórnina til allra góðra verka og ég tala fyrst og fremst fyrir því að við náum samstöðu um það hér á vettvangi þingsins að ráðast í einhverjar raunverulegar aðgerðir hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Það er mál málanna í dag.