136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Á fundi nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins með fulltrúum frá hagsmunasamtökum heimilanna í morgun var samhljómur á milli þeirra aðila, þ.e. framsóknarmanna og hagsmunasamtaka heimilanna, um að nauðsynlegt sé að ráðast nú þegar í heildstæðar aðgerðir til að koma til móts við skuldug heimili.

Í raun og veru er samhljómur á milli hagsmunasamtaka heimilanna og framsóknarmanna um að við þurfum að fara í nokkuð róttækar aðgerðir til að forðast mögulegt kerfishrun í íslensku samfélagi. Það er erfitt að segja þessi stóru orð, að kerfishrun geti mögulega verið yfirvofandi. En ég fullyrði það og það er sannfæring mín, að ef menn gera ekki neitt, er veruleg hætta á því að þeir fljóti sofandi að feigðarósi. Nú er ég ekki að segja að núverandi ríkisstjórn ætli sér ekki að gera neitt í þeim efnum. En við þurfum að grípa til aðgerða sem allra fyrst.

Ég spurði hv. þingmann að því áðan hvað honum þætti um þær efnahagstillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram, hvort þær séu ekki skoðunarverðar? Og hvort ekki sé eitthvað í þeim 26 tillögum sem við lögðum fram sem geti mögulega komið til móts við heimilin og atvinnulífið. Ég mundi gjarnan vilja frá svar við því.

Síðan voru ákveðin stórpólitísk tíðindi í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar þar sem mér fannst hann lýsa yfir einhvers konar bandalagi á milli tveggja flokka um að mynda saman ríkisstjórn. Ég hef ekki orðið var við annað en að þessir flokkar hafi talað mjög fallega til framsóknarmanna um samstarf eftir kosningar. Því væri athyglisvert að heyra hvort eitthvert formlegt samstarf sé á milli þessara tveggja flokka eða hvort hv. þingmaður geti hugsað sér að vinna með Framsóknarflokknum í ríkisstjórn eftir kosningar.