136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er efnislega alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar, að Sjálfstæðisflokkurinn átti í erfiðleikum með Samfylkinguna og ég held að Samfylkingin hafi átt í erfiðleikum með Sjálfstæðisflokkinn í tíð síðustu ríkisstjórnar, enda var sú ríkisstjórn orðin frekar verklítil og talaði út og suður í mörgum grundvallarmálum. Þess vegna var það mat okkar framsóknarmanna að þá ríkisstjórn yrðum við að losna við. Mér heyrðist hv. þingmaður að einhverju leyti taka undir það að síðasta ríkisstjórn hefði ekki verið nægilega samstiga í þessum grundvallarmálum.

Hv. þm. Jón Gunnarsson talar um að stefna Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum, og væntanlega efnahagsmálum, sé skýr. Í ljósi þess að við erum öll að endurmeta gildi íslensks samfélags — ég tel að við höfum farið að mörgu leyti út af slóðinni á nokkurra ára tímabili þegar útrásarvíkingarnir sungu hvað hæst og menn dönsuðu í kringum gullkálfinn og öll þurfum við að líta í eigin barm í þeim efnum — vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé enn skýr og klár stefna Sjálfstæðisflokksins að regluverk, til að mynda með fjármálamörkuðum, eigi að vera eins lítið og hægt er. Vilja menn hafa stofnanir sem fylgjast með fjármálamörkuðunum eins takmarkaðar og hægt er, þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki líka eins og Framsóknarflokkurinn og aðrir flokkar að líta í eigin barm?

Hv. þingmaður talar um að stefna flokksins sé svo skýr. Er hann þá að tala fyrir því að stefnan verði óbreytt, að flokkurinn hafi sama gildismat, til að mynda með eftirlitsþáttum er varða fjármálamarkaðinn? Ef svo er held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé einfaldlega ekki í takt við samfélagið á Íslandi í dag og ég tel að hann þurfi að endurskoða sína skýru stefnu að miklu leyti hvað þessi mál áhrærir.