136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Hann fer um víðan völl en í stuttu máli svaraði hann þó spurningu minni og staðfesti að Sjálfstæðisflokkurinn átti í mesta basli með Samfylkinguna varðandi atvinnumálin í síðustu ríkisstjórn og sá vandræðagangur kristallast síðan í stöðu mála í sama málaflokki í núverandi ríkisstjórn.

Varðandi fjármálamarkaðinn, virðulegi forseti, vilja alveg örugglega allir flokkar og allir stjórnmálamenn geta spilað til baka og hefðu viljað gera einhverja hluti öðruvísi. Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til þess að líta í eigin barm, axla okkar ábyrgð, læra af mistökunum og nýta þau til að koma enn sterkar inn í framtíðina.

Undirstaðan undir velferð heimila og öryggi heimilanna í landinu og einstaklinganna byggist á öflugri atvinnustarfsemi, virðulegi forseti. Sá þáttur er í stórhættu og væntanlega munu næstu kosningar snúast um það hvort (Forseti hringir.) hér verði rekin raunhæf atvinnustefna eða atvinnustefna byggð á innihaldslausum fagurgölum vinstri flokkanna.